Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þurfum að lifa með faraldrinum til lengri tíma

21.07.2020 - 14:39
Mynd: RÚV / RÚV
47 þúsund sýni hafa verið tekin við landamærin frá því að skimun hófst þar 15. júní. Átján virk smit hafa greinst og rúmlega níutíu gömul smit. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að hægt sé að fullyrða að ekkert innanlandssmit sé í landinu en síðasta slíka smitið greindist í byrjun júlí. Núverandi fyrirkomulag á landamærunum hafi verið mjög áhrifaríkt í því að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna vegna COVID-19.

Stöndum nú á krossgötum

Þórólfur sagði að við stæðum nú á krossgötum, sér í lagi ef litið væri til útbreiðslu faraldursins erlendis.  Um 220.000 greindust með veiruna á hverjum degi og um 4 þúsund dæju af völdum veirunnar, sem væri mesti fjöldi sem greinst hefði frá því að faraldurinn hófst.  Ljóst sé að fólk þyrfti að breyta hugsunarhætti sínum og hafa í huga að faraldurinn stæði yfir næstu mánuði eða jafnvel ár.

„Það er alveg ljóst að þessi faraldur er ekki á undanhaldi í heiminum nema síður sé og engan veginn hægt að segja til um hvenær honum muni ljúka í heiminum. Þetta er hugsun sem við þurfum að hafa í huga. Ég held að á þessum tímapunkti þurfum við að hugsa fram í tímann að þetta er veira og faraldur sem við þurfum að lifa með næstu mánuði eða jafnvel næstu ár og við þurfum að leggja upp langtímaplön um það hvernig við ætlum að lifa með þessum faraldri erlendis og hvað við ætlum að gera til að lágmarka áhættuna af því að hér blossi upp faraldrar innanlands.“

Fram til þessa hafi stjórnunin á faraldrinum verið „krísustjórnun“ en nú þurfi að breyta um áherslu og líta á stjórnun og aðgerðir gegn faraldrinum sem daglega vinnu. Þórólfur hyggst mælast til þess við stjórnvöld að ný hugsun og nýjar aðgerðir taki nú við.

„Þessi nýja vegferð sem við erum að fara í núna felur í sér aðgerðir sem að hafa það að markmiði að mínu mati að lágmarka útbreiðslu veirunnar og á sama tíma að skapa hér aðstæður til að koma efnahag landsins í gott horf.“

Hættulistinn uppfærður um mánaðamót

Á þessari stundu er ekki áformað að bæta við eða taka lönd af hættulista en það verður líklega gert í kringum mánaðamótin, að sögn Þórólfs. Endanleg ákvörðun hafi þó ekki verið tekin.

Þá segir hann að niðurstöður úr rannsóknum á bóluefni lofi góðu en of snemmt sé að hrósa happi. Það taki lík­lega að minnsta kosti ár að markaðssetja nýtt bólu­efni við far­aldr­in­um.