Sveindís með þrennu er Breiðablik gekk frá meisturunum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Sveindís með þrennu er Breiðablik gekk frá meisturunum

21.07.2020 - 21:05
Sveindís Jane Jónsdóttir stal senunni er Breiðablik vann 4-0 sigur á Íslandsmeisturum Vals í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld. Hún skoraði þrjú af fjórum mörkum Blika í leiknum.

Valur var fyrir leik kvöldsins á toppi deildarinnar með 16 stig eftir sex leiki en Breiðablik hafði aftur á móti aðeins spilað fjóra leiki og var með fullt hús stiga, 12 stig eftir fjóra leiki í öðru sætinu. Um er að ræða Íslandsmeistara síðustu tveggja ára og því mikið undir í kvöld. Báðum leikjum liðanna í deildinni í fyrra lyktaði með jafntefli er Valskonur urðu meistarar og hafði hvorugt liðanna tapað deildarleik frá því í september 2018.

Stærð leiksins virtist þó flækjast fyrir leikmönnum framan af. Gæði skorti í uppspil beggja liða og fátt um góða spilkafla þar sem ákveðið stress virtist einkenna leikinn. Hvorugu liðinu tókst að setja mark sitt á leikinn fyrir hlé og staðan því markalaus þegar hálfleiksflautið gall.

Það er þó óhætt að segja að leikurinn hafi farið fjörlega af stað eftir hlé. Það tók Sveindísi Jane Jónsdóttur aðeins 33 sekúndur að kom Breiðabliki í forystu eftir snarpa sókn og sléttri mínútu síðar slapp hún í gegnum vörn Vals áður en hún tvöfaldaði forystuna, 2-0, eftir tveggja mínútna leik í síðari hálfleik.

Valskonur virtust slegnar út af laginu en unnu sig hægt og rólega inn í leikinn eftir þessa byrjun. Þær pressuðu stíft á Blikakonur en fjölmargar marktilraunir þeirra ógnuðu markinu lítillega þar sem Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður Breiðabliks, stóð vaktina vel. Breiðablik átti þá skyndisókn um stundarfjórðungi fyrir leikslok þar sem hver önnur en Sveindís Jane Jónsdóttir var mætt til að binda endahnútinn sem fullkomnaði þrennu sína. Berglind Björg Þorvaldsdóttir gekk þá endanlega frá leiknum með fjórða marki Breiðabliks fjórum mínútum fyrir leikslok. 4-0 sigur Breiðabliks urðu því lyktir leiksins.

25 leikja taplausri hrinu Vals í efstu deild er þar með lokið en liðið tapaði síðast 4-1 fyrir Þór/KA þann 17. september 2018. Breiðablik viðheldur fullkominni byrjun sinni á mótinu og er liðið nú með 15 stig í öðru sætinu, stigi á eftir Val, auk þess að eiga leik inni. Breiðablik hefur þá enn fremur ekki fengið á sig mark í sumar, með markatöluna 19-0 eftir fimm leiki.