Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Stjórnvöld upplýst um gang mála hjá Icelandair

21.07.2020 - 18:09
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að stjórnvöld hafi verið upplýst um stöðu mála í kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair. Ríkisstjórnin hafi hins vegar ekki haft neina aðkomu að því að samningar náðust eftir að ríkissáttasemjari boðaði til fundar á laugardag.

Samningurinn var undirritaður eftir að stjórnendur Icelandair höfðu sagt upp öllum flugfreyjum og ákveðið að leita eftir samningum við annan samningsaðila á íslenskum vinnumarkaði eins og það var orðað í yfirlýsingu.

Forysta verkalýðshreyfingarinnar gagnrýndi þessa ákvörðun Icelandair harðlega og sakaði félagið um grafa undan samningsrétti launafólks.

Það stefndi því í hörð átök á vinnumarkaði áður en samkomulag loks náðist.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að stjórnvöld hafi fylgst með gangi mála en ekki beitt neinum þrýstingi.

„Þetta eru kjarasamningar sem eru alfarið á forsendum félagsins og stéttarfélagsins. Okkar aðkoma er í raun og veru engin. Enda eru þetta samningar á almennum markaði. Hins vegar var það þannig að í gegnum ríkissáttasemjara og einhverjum samtölum þá voru menn upplýstir um það hver staðan var,“ segir Bjarni.

Icelandair hyggst halda hlutafjárútboð í næsta mánuði og stjórnvöld hafa lýst yfir að þau séu tilbúin að veita félaginu aðstoð. Bjarni segir mikilvægt að samkomulag hafi náðst í þessari kjaradeilu.

„Ég held að það hljóti allir að sjá að það er mikilvægt í þeirri vinnu sem félagið stendur í að ljúka kjarasamningum við allar þessar meginstéttir,“ segir Bjarni.