Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Sögulegt samkomulag í Brussel

Mynd með færslu
 Mynd:
Leiðtogar Evrópusambandsins hafa komist að samkomulagi um fjárhagslegan stuðning við þau ríki sambandsins sem illa hafa orðið úti í kórónuveirufaraldrinum.

Leiðtogum sambandsins tókst að loknum fjögurra daga geysihörðum samningaviðræðum hvort tveggja að samþykkja sjö ára fjárhagsáætlun þess og fyrirkomulag bjargráðasjóðs vegna faraldursins.

Alls verður 750 milljörðum evra varið til að blása lífi í efnahagslíf verst stöddu ríkja álfunnar. Það er mesta tilfærsla fjármagns innan sambandsins frá því að samstarfið hófst.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sér um að útdeila fjármagninu. Um helmingur greiðslnanna, eða 390 milljarðar evra, verður í formi óendurkræfa styrkja.

Ákveðnar kröfur eru gerðar um umbætur innan þeirra ríkja sem styrkina og lánin fá. Um þriðjungi skal varið til úrbóta í loftslagsmálum auk þess sem greiðslur eru háðar því að ríki fari að lögum sambandsins. 

Þar er einkum horft til Ungverjalands og Póllands sem gagnrýnd eru fyrir að fara á svig við þau. Aukinn meirihluta atkvæða sambandsríkjanna þarf þó til að stöðva greiðslur til þeirra, ákvörðun sem forsætisráðherrar beggja ríkja tóku feginsamlega.

Charles Michel forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins var stuttorður þegar hann fagnaði samkomulaginu á Twitter. Emmanuel Macron forseti Frakklands sagði daginn vera sögulegan fyrir Evrópu.