Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Skiptir okkur öllu máli að þessi niðurstaða náðist“

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, fagnar því að þriggja sólarhringa vinnustöðvun Sjómannafélags Íslands hafi verið aflýst. Vinnustöðvun undirmanna um borð í Herjólfi átti að hefjast á miðnætti.

Samkomulag náðist um viðræðuáætlun og er stefnt að undirritun samnings 17. ágúst. Jónas Garðarsson formaður samninganefndar Sjómannafélagsins sagði í gær að þetta væri ekki óskastaða en lengra yrði ekki komist. Í raun hefði ekkert náðst fram en félagið hefði ekki viljað bera ábyrgð á áhrifum verkfalls á ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, sagði að niðurstaða væri komin í ákveðna liði í viðræðunum og því grundvöllur fyrir því að ræða málin áfram, gengið yrði út frá Lífskjarasamningnum hvað varðaði styttingu vinnutímans og launahækkanir. Íris fagnar þessari niðurstöðu.

„Fyrir samfélagið allt og okkur Eyjamenn eru þetta náttúrulega mjög góðar fréttir að það sé búið að aflýsa verkfalli. Þriggja daga verkfall hefur gríðarleg áhrif á samfélagið allt hérna og á þessum árstíma, eins og fram hefur komið, hefur þetta rosalega mikil áhrif á allt sem tengist lífinu hér í Eyjum, ferðaþjónustunni og atvinnutækifærum hjá fólki og öllu. Þetta skiptir okkur öllu máli að þessi niðurstaða náðist og það eru órofnar samgöngur við Eyjar, bæði fyrir okkur og landsmenn alla sem vilja sækja okkur heim.“

Fyrri vinnustöðvanir í deilunni hafi haft mikil áhrif .„Eðlilega þegar þjóðvegurinn er lokaður að þá finna allir mjög mikið fyrir því og það er bara eitthvað sem að erfitt er að sætta sig við.“