Sérsvið Sigrúnar, sem er doktor í hjúkrunarfræði, liggur á sviði sálrænna áfalla, ofbeldis og áfallamiðaðrar nálgunar, segir í grein Fréttablaðsins. Sigrún hefur þá sinnt kennara- og leiðbeinandastörfum, þróun námskeiða og haldið ráðstefnur við Háskólann á Akureyri frá 2012 og hefur reynslu af alþjóðlegu samstarfi á sínu sviði.
Hún hefur auk þess komið að stofnun ýmissa samtaka svo sem Krabbameinsfélags Sigurvonar á norðanverðum Vestfjörðum, Rannsóknarmiðstöðvar gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri og Samtaka um stuðningssetur fyrir ungt fólk. Hún situr í stjórn Rannsóknarmiðstöðvarinnar og miðstöðvarinnar í Bjarmahlíð. Þá er hún stjórnarformaður Bergsins Headspace og tók þátt í þróun samtakanna.
Kvikmyndaskólinn sækir í sig veðrið
Sigrún tekur við stöðu aðstoðarrektors í byrjun september. Aðstoðarrektor Kvikmyndaskólans er ætlað að styrkja bæði innri stjórnun í skólahaldi og akademíska virkni í yfirstjórn skólans, segir í grein Fréttablaðsins. Staðan var auglýst í vor og bárust alls 35 umsóknir. Fimm voru metnir vel hæfir til starfans.
Kvikmyndaskóli Íslands hefur sótt í sig veðrið að undanförnu. Forsvarsmenn skólans sóttu um flýtimeðferð hjá mennta- og menningarmálaráðherra um að fá háskólaviðurkenningu fyrir næsta ár og Friðrik Þór Friðriksson, rektor skólans, vonast til þess að það náist. Umbreytingarferlið sé þegar hafið hjá skólanum.
Þá hefur Kvikmyndaskólinn gert leigusamning til tuttugu ára og verður skólinn til húsa við Suðurlandsbraut 18. Í tilkynningu frá skólanum segir að það sé mikill léttir að skólinn hafi nú framtíðarhúsnæði. Skólinn hefur verið til húsa að undanförnu á Grensásvegi 1. Til stendur að rífa það hús, þannig sá samningur var tímabundinn.