Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

SA kallar eftir viðbrögðum SÍ við yfirlýsingu VR

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/SA
Samtök atvinnulífsins kalla eftir viðbrögðum fjármálaeftirlits Seðlabankans við afskiptum stjórnar VR af Lífeyrissjóði Verzlunarmanna í kjölfar fregna af uppsögnum flugfreyja hjá Icelandair. Þau eru með verulegar aðfinnslur við vinnubrögð stjórnar sjóðsins.

Í bréfinu óskar SA eftir því að Seðlabankinn grípi til tafarlausra aðgerða, umfram almenn tilmæli til hagsmunaaðila almennt, til að standa vörð um sjálfstæði sjóðsins og hag sjóðsfélaga. „Þannig má tryggja að faglega verði staðið að fjárfestingaákvörðunum í sambandi við fyrirhugað hlutafjárútboð Icelandair.“

Í yfirlýsingu stjórnar VR frá því á föstudag sagði meðal annars: „Stjórn VR getur ekki sætt sig við það að eftirlaunasjóðir launafólks séu notaðir til fjárfestinga í fyrirtækjum sem hvetja til félagslegra undirboða. Það stríðir gegn öllum þeim gildum sem verkalýðshreyfingin stendur fyrir. Lífeyrissjóðirnir hafa einnig sett sér alþjóðleg siðferðisleg viðmið í fjárfestingastefnum sínum og ber að fylgja þeim eftir.“ Þeim tilmælum er beint til þeirra fjögurra stjórnarmanna af átta, sem VR skipar í stjórn sjóðsins, að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair.

Aðspurður um það hvort stjórn VR myndi skipta um skoðun í kjölfar þess að samningar náðust milli Icelandair og flugfreyja sagði Ragnar Þór í fyrradag: 

„Mitt mat á stöðunni svona í fljótu bragði er að þetta breyti í sjálfu sér ekki alla vega minni afstöðu í garð stjórnenda fyrirtækisins. Mér finnst málin hafa fengið að fara alltof alltof langt og framkoman bara algerlega óboðleg,“ sagði Ragnar Þór. 

„Með yfirlýsingu sinni frá 17. júlí er stjórn VR að reyna að taka beina stjórn á sjóðnum og þeim fyrirtækjum sem hann er hluthafi í þvert á lög, reglur og góða stjórnarhætti. Virðist þetta nú vera orðinn árviss viðburður stjórnarinnar, að sýna Seðlabankanum algera lítilsvirðingu og láta varnaðarorð aðstoðarseðlabankastjóra fjármálaeftirlits sem vind um eyru þjóta,“ segir í tilkynningu SA.