Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

PISA-könnuninni frestað vegna COVID

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
PISA-könnuninni, sem leggja átti fyrir 15 ára nemendur víða um heim á næsta vori hefur nú verið frestað um ár, til vorsins 2022. Það er gert vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta þýðir að þeir nemendur sem hefja nám í 10. bekk hér á landi í haust munu ekki taka þátt í könnuninni eins og gert hafði verið ráð fyrir. Það munu aftur á móti þeir skólafélagar þeirra gera sem eru árinu yngri.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, sem heldur utan um framkvæmd könnunarinnar. Menntamálastofnun sér um framkvæmd PISA hér á landi fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

PISA er skammstöfun fyrir enska heiti könnunarinnar Programme for International Student Assessment og er umfangsmikil alþjóðleg könnun á hæfni og getu í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og í læsi á stærðfræði. Hún er lögð fyrir 15 ára nemendur á þriggja ára fresti og var síðast tekin vorið 2018. 

Á vefsíðu OECD segir að ákvörðun um frestunina hafi verið tekin af aðildarríkjum stofnunarinnar og að þarnæstu PISA könnun, sem leggja átti fyrir vorið 2024 verði sömuleiðis frestað um eitt ár, til 2025.