Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óttast heyskort næsta vetur

21.07.2020 - 20:47
Bændur víða um land vinna nú baki brotnu við heyannir fyrir veturinn. Mikið kal í vor setur strik í reikninginn hjá bændum eystra sem hafa ekki séð minni uppskeru í áraraðir.

Heyskapur hefur gengið með ágætasta móti í sumar á Suður- og Vesturlandi. Norðan við Holtavörðuheiði er staðan misgóð. Í Húnavatnssýslum og Skagafirði var talsvert um kal en þó sjá bændur ekki fram á mikinn heyskort. Í Eyjafirði var tíð hagstæð í júní og það sem af er júlí sem hafði góð áhrif á sprettu. Áttatíu til níutíu prósent túnanna á Búvöllum í Aðaldal voru kalin í vor.Sveinbjörn Þór Sigurðsson bóndi á Búvöllum segir að þurrkatíð fyrri part sumars hafi bætt gráu ofan á svart eftir að túnin komu kalin undan vetrinum.

„Þetta er svona víðast hvar helmingur af vejulegum heyskap í fyrri slætti. Heyrist mér, bæði hjá mér og miklu víðar“ segir Sveinbjörn.

Í Þingeyjarsýslum og á Austurlandi var staðan einna verst. Þar setti þurrkur í kjölfar kalsins í vor stórt strik í reikninginn. Bændur búast við að heyfengur verði með allra minnsta móti á Héraði og víðar á Austurlandi. Þar sjá bændur fram á að þurfa jafnvel að fækka búfénaði næsta vetur. Tún sem verða kalin eru oft á tíðum nýræktuð og eru þar af leiðandi bestu tún bænda. Þau eiga að skaffa besta fóðrið fyrir búfénaðinn. Sveinbjörn segir að bændur bindi ríkar vonir við að seinni sláttur verði góður og seinni hluti sumars verði nýttur til að ná uppskeru af endurræktuðum túnum.

„Á mínum 46 ára búskaparferli þá held ég að þetta sé versta kal sem ég hef lent í persónulega, en þetta var misjafnt á milli bæja. Svo hefur sumarið heldur ekki verið þessu hagstætt. En þessir erfiðleikar eru nú bara til að gera mann sterkari og við höfum oft séð það frekar dökkt bændur en bregðumst alltaf vel við.“ segir Sveinbjörn.