Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Mótmælir sönnunargildi bókar um gjaldeyriseftirlitið

21.07.2020 - 17:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hlutar greinargerða Seðlabankans í skaðabótamálum Samherjamanna voru afmáðir að beiðni Samherja áður en fréttastofa fékk þær afhentar. Bankinn mótmælir því sérstaklega í greinargerðunum að bók um gjaldeyriseftirlitið og sjónvarpsþáttur á Hringbraut hafi sönnunargildi í málunum.

Dómsmálin varða þá ákvörðun Seðlabankans að sekta Samherja um 15 milljónir og Þorstein Má um 1,3 milljónir vegna meintra brota á gjaldeyrislögum, en sektirnar voru afturkallaðar eftir að í ljós kom að engin gild refsiheimild var til staðar í lögunum. Samherjamenn hafa alla tíð verið afar gagnrýnir á málsmeðferð Seðlabankans. Í öðru málinu krefst Samherji 306 milljóna í skaðabætur og 10 milljóna í miskabætur, en í hinu krefst Þorsteinn Már fimm milljóna í skaðabætur og einnar og hálfrar milljónar í miskabætur.

Segir fyrirtæki ekki geta orðið fyrir miska

Í greinargerðum bankanna í málunum er öllum málsástæðum Samherjamanna hafnað. Varðandi miskabótakröfurnar er því haldið fram að fyrirtæki geti ekki orðið fyrir miska í skilningi laga, og hins vegar að engin opinber umræða hafi orðið um mál Þorsteins, nema af hálfu hans sjálfs.

Í báðum greinargerðum mótmælir lögmaður Seðlabankans sérstaklega sönnunargildi bókar um gjaldeyriseftirlit Seðlabankans, og fullyrt að Samherjamenn byggi talsverðan hluta máls síns á bókinni, sem byggist mikið til á viðtölum við ónafngreinda heimildamenn. Það sama eigi við um sjónvarpsþátt Hringbrautar um gjaldeyriseftirlitið.

Lögðust alfarið gegn afhendingu greinargerðanna

Fréttastofa fékk greinargerðirnar afhentar frá Seðlabankanum á grundvelli upplýsingalaga. Lögmaður Samherja lagðist alfarið gegn því að greinargerðirnar yrðu afhentar á þeim forsendum að þær væru gagn í dómsmáli og vörðuðu auk þess í heild sinni mikilvæga viðskiptahagsmuni fyrirtækisins.

Seðlabankinn féllst ekki á það, en strikaði þó út tiltekna hluta greinargerðanna, sem var varakrafa lögmannsins – samtals um tvær síður af 26 í greinargerð Samherja og um þrjár og hálfa síðu af fimmtán síðna greinargerð Þorsteins Más.

Greinargerð SÍ í máli Samherja.
Greinargerð SÍ í máli Þorsteins Más.