Lagði skóna á hilluna og fór á fullt í lyftingar

Mynd með færslu
 Mynd: Böðvar Tandri Reynisson

Lagði skóna á hilluna og fór á fullt í lyftingar

21.07.2020 - 13:38
Böðvar Tandri Reynisson er yfirþjálfari víkingaþreks í Mjölni. Hann hefur mikinn áhuga á heilsu og hreyfingu og er lúmskur þungarokkari. Gunnar Ingi Jones spjallaði við Böðvar í hlaðvarpinu Þungarokk og þungar lyftur, um vellíðan í líkamsrækt, hvernig hann byrjaði að lyfta og þegar hann fékk æxli.

Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni hér.

Böðvar æfði handbolta í átta ár. Hann ákvað svo að leggja handboltaskóna á hilluna og fara á fullt í lyftingar eftir að hafa þurft að sitja á bekknum heilan leik. „Mamma og pabbi ákváðu að koma horfa á, sem þau gerðu mjög sjaldan og ég sit á bekknum allan leikinn, fyrri hálfleik og allan seinni hálfleik og varð svo sár.“ Eftir leikinn býður pabbi Böðvars honum með sér í ræktina. Ræktin og lyftingar heilluðu hann og hann hefur verið á fullu í því síðan.

Í hlaðvarpsþættinum Þungarokk og þungar lyftur fræðumst við um samspil heilsu og tónlistar og hvort það sé einhver tenging þar á milli. Gunnar Ingi fær til sín góða gesti sem tengjast lyftingum og rokki.

Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan, í öllum helstu hlaðvarpsveitum og á Spotify.