Kæru vegna breytinga á Bústaðavegi hafnað

21.07.2020 - 08:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur hafnað kæru íbúa við Birkihlíð vegna breikkunar og færslu Bústaðavegar. Íbúarnir kröfðust þess ákvörðun skipulags-og samgönguráðs um að veita framkvæmdaleyfi yrði felld úr gildi, hljóðmön færð til fyrra horfs og að bættur yrði sá gróður sem hefði verið skemmdur eða fjarlægður.

Framkvæmdir við breytingarnar voru stöðvaðar í október á síðasta ári þegar í ljós kom að Reykjavíkurborg hafði ekki farið í grenndarkynningu.  Bætt var úr því í nóvember auk þess sem haldin var fundur með íbúum. Framkvæmdaleyfi var síðan gefið út í febrúar.

Íbúarnir sögðu í kæru sinni að þarna væri verið breikka einn umferðarþyngsta stofnveg höfuðborgarsvæðisins verulega og færa hann fjórum metrum nær húsi þeirra. Þetta hefði í för með sér neikvæð áhrif á umhverfisþætti og verulega neikvæð áhrif á verðmæti fasteignar þeirra.

Þá töldu þeir ámælisvert að heimila framkvæmdina en vísa á sama tíma til þess að íbúar gætu óskað eftir aðstoð heilbrigðiseftirlitsins til hljóðmælinga þegar framkvæmdum væri lokið.  Veltu þeir því upp hvort eðlilegt væri að framkvæma fyrst og mæla svo.  Óeðlilegt væri að leggja þá ábyrgð á íbúa.

Reykjavíkurborg sagði íbúa í þéttbýli alltaf geta vænst þess að endurbætur væru gerðar á götum og vegum til að bæta umferð og öryggi almennings. Með þessu væri verið að minnka umferðatafir sem varði hagsmuni íbúa á svæðinu. Hægagangur og hraðabreytingar bíla auki útblástur og lengi ferðatíma.  

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdaleyfið væri ekki háð form- eða efnisannmörkum.  Meðal annars er vísað til þess að samkvæmt útreikningum muni framkvæmdirnar ásamt mótvægisaðgerðum leiða til þess að hljóðvist verði óbreytt eða batni.  Á það er þó bent að leiði framkvæmdin til aukins hávaða eða loftmengunar geti íbúarnir snúið sér til heilbrigðiseftirlitsins og krafist úrbóta. Reynist það niðurstaðan geti þeir farið fram á bætur.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi