Jón Þór: „Þingspilið er bara skemmtilegt grín“

21.07.2020 - 14:30
Innlent · Alþingi · Alþingismenn · Leikir · Spil · Stjórnmál · Söfnun · Mannlíf · Stjórnmál
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Ólafsson
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, safnar fyrir prentun á Þingspilinu – með þingmenn í vasanum. Hann stefnir á að gefa spilið út fyrir næstu jól.

„Hugmyndin kviknaði í hitamóki í desember fyrir einu og hálfu ári,“ segir Jón Þór í samtali við fréttastofu. Hann segist svo hafa unnið að spilinu í jólafríinu og haldið áfram að þróa hugmyndina síðan þá. 

Í spilinu hafa formenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi hver sitt viðurnefni og skopmynd á spjaldi. Leikmenn keppast við að ná sem flestum þingmönnum í nafni formannanna.

„Bjarni sagðist slakur yfir viðurnefninu Hr. Teflon“

Jón Þór segist hafa borið spjöldin undir formennina. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er kallaður Endurkomukrakkinn í spilinu. Aðspurður segir Jón Þór að hann hafi tekið því vel: „Sigmundur horfði á mig og spilið til skiptist þangað til hann stundi upp úr sér: „Þú ert nú ekki alslæmur“,“ segir Jón Þór og hlær.

Þá segir hann að Bjarni Benediktsson hafi sagst vera „slakur“ yfir viðurnefninu Hr. Teflon. Í spilinu er Inga Sæland kölluð Soffía frænka. Jón Þór segist fyrst hafa borið undir hana viðurnefnið Maddamman. Hún hafi hlegið og sagst gjarnan vera kölluð Soffía frænka. Þannig hafi nafnið komið til. 

„Einn formaður vildi strax sjá spjöld hinna formannanna, eftir að hafa séð sitt,“ segir Jón Þór. „Það var keppnismanneskjan Þorgerður Katrín,“ bætir hann við, en hún hefur viðurnefnið Frú Endurreisn. Þá segir hann einn formannanna hafa efast dálítið, en sagst ekki myndu kæra hann. Það hafi verið Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sem er kallaður Kletturinn í spilinu. Hugsanlega hafi þó örlað á húmor. 

„Logi Einarsson fær svo viðurnefnið Nýi gæinn, því hann kom inn nýr og bjargaði flokknum,“ segir Jón Þór.

Safnar fyrir útlögðum kostnaði

Jón Þór segist munu prenta spilið ef 800 þúsund krónur safnast á söfnunarvefnum Karolina Fund. „Það væri þá fyrir útlögðum kostnaði. Þá kæmi ég út á núlli við prentunina,“ segir hann. Ef upphæð umfram 800 þúsund safnist sjái hann fyrir sér að nota hana til að bæta spilið, til dæmis prenta það á betri pappír, og fá hluta upphæðarinnar í vasann. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi