Icelandair vill klára alla samninga fyrir mánaðamót

21.07.2020 - 08:03
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Icelandair hefur sett stefnuna á að klára samninga við 15 lánardrottna, stjórnvöld og flugvélaframleiðandann Boeing fyrir mánaðamót áður en farið verður í hlutafjárútboð í ágúst. Flugfélagið á viðræðum við stjórnvöld um skilmála lánalínu til þrautavara.

Þetta hefur Fréttablaðið eftir Evu Sóleyju Guðbjörnsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Icelandair.

Í blaðinu kemur fram að lánardrottnar Icelandair séu 15 og að viðræðurnar við þá séu flestar komnar vel á veg. „Samhliða því erum við að ræða við ríkið um lánaskilmála vegna lánalínu til þrautavara, sem félagið gæti nýtt ef rekstrarskilyrði flugfélaga verða mjög erfið til lengri tíma og fjármagnið úr hlutafjárútboðinu dugar ekki til,“ hefur blaðið eftir Evu.

Hún segir jafnframt að enn sé möguleiki að fara sömu leið og norska flugfélagið Norwegian sem hefur stefnt Boeing vegna kyrrsetningar Max-vélanna.   Þá snúist viðræðurnar við stjórnvöld um að Icelandair geti „dregið á lánalínu“ og tryggt rekstrarhæfi ef ládeyða á markaði varir lengur en spár flugfélagsins gera ráð fyrir.

Í tilkynningu sem félagið sendi Kauphöllinni í lok júní kom fram að stefnt væri að hlutafjárútboði í ágúst ef það tækist að ljúka samkomulagi í júlí.  Þá kom einnig fram í tilkynningunni að að félagið ynni með íslenskum stjórnvöldum, Íslandsbanka og Landsbanka við útfærslu ríkisábyrgðar á láni. 

Í tilkynningunni sagði enn fremur að viðræðurnar við Boeing vegna Max-vélanna hefðu verið uppbyggilegar og að niðurstaða gæti legið fyrir í júlí.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi