Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Íbúar Nuuk kjósa um tilvist styttu af nýlenduherra

21.07.2020 - 21:41
Mynd: knr.gl / KNR - grænlenska útvarpið
Íbúar Nuuk á Grænlandi greiða nú atkvæði um hvort fjarlægja eigi styttu af gömlum nýlenduherra í höfuðstaðnum. Skemmdarverk voru unnin á styttunni á dögunum.

Rauðri málningu slett á styttuna, sem er af Hans Egede, og skrifað á hana decolonize, sem myndi þýða að landið fengi sjálfstæði frá Dönum. Þetta var gert aðfaranótt þjóðhátíðardags Grænlendinga, 21. júní. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem styttan er skemmd.

Verknaðurinn er talinn angi af því að eftir morðið á George Floyd í Minneapolis í Bandaríkjunum hefur verið barist fyrir að styttur af sögufrægum mönnum sem eru þekktir fyrir kúgunartilburði verði teknar niður. 

Egede var lútherskur trúboði, danskur og norskur að uppruna. Hann kom til Grænlands árið 1721 til að kristna norræna menn. Þeir fundust ekki á Grænlandi og því beindi hann trúboðinu að inúítum í staðinn. Hann stýrði Grænlandi fyrir hönd Dana og stofnaði meðal annars Nuuk, sem er nú höfuðstaður Grænlands. Íbúakosningin fer fram á netinu. Hún hófst 3. júlí og lýkur á miðnætti.