Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hundar skelltu sér í bíó

Mynd: Aðsend mynd - Andrea Guðný In / Aðsend mynd - Andrea Guðný In

Hundar skelltu sér í bíó

21.07.2020 - 09:23

Höfundar

Smáhundar skelltu sér í bíó með eigendum sínum á sunnudaginn. „Hundarnir voru allir rosalega duglegir og eigendurnir sáttir,“ segir Hörður Fannar Clausen, vaktstjóri Sambíóanna í Kringlunni. Hann segir góða reynslu sunnudagsins gefa möguleika á fleiri sams konar viðburðum.

Hundarnir sóttu teiknimyndina Scoob, þar sem fylgst var með vinsæla hundinum Scooby-Doo leysa glæpi. Smáhundarnir kúrðu í fangi eigenda sinna á meðan á sýningunni stóð, segir Hörður Fannar, í Morgunútvarpi Rásar 2. Boðið var upp á vatn fyrir hundana í hléi sem gátu þá svalað þorstanum og teygt úr sér.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Andrea Guðný In
Myndin er samsett

Hvað salernisferðir smáhundanna varðar segir Hörður að starfsfólk bíósins hafi ekki orðið vart við nein slys, sem boði gott. Sumir höfðu þó varann á. „Mér skilst að einhverjir eigendur hafi komið með hundana í bleyjum, sem er náttúrulega bara snilldarlausn.“

Hann segir að allt hafi gengið mjög vel og honum þyki hugmyndin góð. „Ég held að það að auka aðgengi hunda á almenningsstöðum, mér finnst það bara efla hundamenningu á Íslandi almennt og mér finnst það bara mjög skemmtilegt. Ég held að því meira sem umhverfisþjálfaðir hundar og eigendur þeirra geta notið fleiri staða því betra.“

Hörður Fannar segir óhætt að kalla viðburðinn spennandi prufukeyrslu. Ekki sé ólíklegt að hundabíó verði fastur liður í framtíðinni.

 

Tengdar fréttir

Innlent

Vonar að hundar verði áfram velkomnir á hótel

Menningarefni

Glaðasti hundur í heimi býður hundum í afmæli

Tækni og vísindi

Dorrit telur Samson geta þefað uppi fólk með Covid-19

Engin slys á fyrsta hundadegi Kringlunnar