Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hegðun Icelandair í engu samræmi við lög á vinnumarkaði

Magnús M. Norðdahl lögfræðingur ASÍ segir að sú ákvörðun Icelandair að segja upp öllum flugfreyjum sínum í Flugfreyjufélagi Íslands og tilkynna um að samið verði við annað stéttarfélag sé í engu samræmi við lög og leikreglur á íslenskum vinnumarkaði. Óheimilt sé að beita uppsögnum til að hafa áhrif á afstöðu fólks í vinnudeilum.

Magnús ræddi framferði Icelandair í kvöldfréttum Sjónvarps.

„Þetta er langt í frá í samræmi við lögin frá 1938. Það er tekið mjög skýrt fram í 4. grein þeirra laga að atvinnurekanda sé með öllu óheimilt að hóta starfsmönnum sínum uppsögn eða segja þeim upp til að hafa áhrif á afstöðu þeirra, hvort sem það eru stjórnmálaskoðanir eða afstöðu þeirra í vinnudeilum,“ segir Magnús.

Hann segir að það hafi gerst í tilviki Icelandair og Flugfreyjufélagsins. „Það var beitt uppsögnum til þess að hafa áhrif á afstöðu þeirra í vinnudeilum. Og það er ólögmætt,“ segir Magnús.

Segir samningsvilja flugfreyja hafa skipt sköpum

Magnús segir að þessar aðgerðir Icelandair geti breytt andrúmsloftinu á vinnumarkaði. „Þegar annar aðilinn beitir aðgerðum á vinnumarkaði sem ekki standast lög, eða eru jafn „brútal“ og þessi aðgerð var, þá getur það auðvitað haft áhrif á traust á milli aðila.  En í þessari deilu þá reyndist það vera sá góði vilji, sem Flugfreyjufélag Íslands hefur til að semja, sem að lokum leysti síðan úr deilunni þegar aðilar gátu mæst á miðri leið.“