Fjöldatakmarkanir rýmkaðar í þúsund 4. ágúst

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, að tillögu sóttvarnalæknis, að framlengja núgildandi auglýsingu um takmörkun á samkomum óbreytta til 4. ágúst. Fjöldatakmörkun á samkomum miðast því áfram við 500 manns næstu tvær vikur en hækkar að þeim loknum í þúsund manns.

Einnig verður leyfilegur opnunartími veitingastaða lengdur til miðnættis. Áður var greint frá því að Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, lagði þetta fram í minnisblaði til ráðherra á föstudag.

„Ég tel að skimanir á landamærum séu nú komnar í gott horf og hefur opnun landamæranna ekki leitt til aukningar á innanlandssmitum. Því tel ég tímabært að huga að frekari tilslökunum á takmörkunum innanlands,“ segir hann í minnisblaðinu.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sagði á upplýsingafundi í dag að Almannavarnir hefðu fundað í morgun með sóttvarnalæknum umdæma og fulltrúum lögreglu um allt land vegna viðbúnaðar um verslunarmannahelgina. Hann hafði á orði að þar hefðu komið fram áhyggjur af sjálfsprottnum útihátíðum þar sem sóttvarnir yrðu ekki virtar. Sagði hann lögreglu ætla að hafa sérstakan viðbúnað vegna þessa.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi