Fanndís ólétt og ekki meira með í sumar

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Fanndís ólétt og ekki meira með í sumar

21.07.2020 - 19:20
Landsliðskonan Fanndís Friðriksdóttir mun ekki leika meira með Val í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í sumar. Hún á von á barni.

Greint var frá tíðindinum í íþróttafréttum Stöðvar 2 og á Vísi í kvöld. Fanndís hefur ekki verið í leikmannahópi Vals í síðustu þremur leikjum liðsins en liðið er á toppi Pepsi Max-deildar kvenna með 16 stig eftir sex leiki. Fanndís er í sambúð með Eyjólfi Héðinssyni, leikmanni Stjörnunnar í Pepsi Max-deild karla, og eiga þau von á barni.

Fanndís, sem er þrítug, lék alla 18 leiki Vals er liðið varð Íslandsmeistari á síðustu leiktíð og á að baki 109 landsleiki fyrir Íslands hönd. Ljóst er að hún mun missa af leikjum Íslands í undankeppni EM sem klárast í haust með fimm leikjum íslenska liðsins.