Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki ástæða til að mæla með munnúða gegn COVID-19

21.07.2020 - 22:37
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Sóttvarnalæknir segist ekki geta mælt með því að fólk noti munnúða gegn kvefi sem lækningu við COVID-19. Munnúðinn er þróaður af íslenskum vísindamönnum og tilraunir á tilraunastofum benda til þess að hann ráðist hart gegn kórónuveirunni sem veldur COVID-19.

Ágústa Guðmundsdóttir doktor í örveru- og sameindaerfðafræði hefur um árabil unnið að þróun efnis sem læknar kvef. Hún er annar af tveimur stofnendum líftæknifyrirtækisins Zymetech sem hefur þróað munnúða, Precold eða Coldzyme, gegn kvefi. Í gær greindi fyrirtækið frá því að munnúðinn gerði veiruna sem veldur COVID-19 óvirka.

Getur þetta Precold læknað COVID-19?

„Við getum ekki sagt neitt um það ennþá. Við erum með þessar frumniðurstöður um áhrif Coldzyme á veirur í tilraunaglösum og þar sýnir það að þetta getur eytt 98-99 prósent af veirunum,“ segir Ágústa.

Þessar niðurstöður fengust á tilraunastofu en rannsóknir á öðrum veirum, kvefveirum, sem gerðar voru á fólki leiddu í ljós merkjanleg áhrif munnúðans. 

Myndir þú hvetja fólk sem hefur greinst með sjúkdóminn til að nota þetta?

„Við þorum ekki, við höfum einmitt rætt þetta innan fyrirtækisins. Við segjum bara: það er í höndum hvers og eins að ákveða hvað hann vill gera. Þannig að við viljum ekki hvetja til eins eða neins,“ segir Ágústa.

Hún segir að munnúðinn falli í flokk lækningavara sem teljist öruggar.

Myndir þú hvetja fólk til að prófa þetta, fólk sem fær COVID-19?

„Ekki nema ég sjái niðurstöður rannsókna sem sýni að þetta virki. Ef það eru ekki til rannsóknir eða engar rannsóknir í bígerð þá sé ég enga ástæðu til að mæla með því,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.

En svona rannsóknir á tilraunastofum er það ekki nógu gilt?

„Nei, það er ekki nógu gilt. Það verður að sýna fram á það hjá fólki að það virki til þess að það sé hægt að mæla með því,“ segir Þórólfur.

Óttastu eitthvað að með því að greina frá þessum rannsóknarniðurstöðum núna þá sé verið að vekja falsvonir í þessari baráttu við faraldurinn?

„Nei, vegna þess að við erum skráð á Nasdaq-markaðinn í Stokkhólmi og hann gerir kröfu til þess að við greinum frá öllum rannsóknarniðurstöðum. Þannig að þetta er í rauninni ekki sett fram til að reyna að örva markaðinn heldur fyrst og fremst vegna þess að við höfum skyldur gagnvart markaðnum,“ segir Ágústa.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV