Egypskur hershöfðingi, Mamdoh Shahen, ávarpar þingið í umræðum í gær. Mynd: EPA-EFE - EPA
Egypska þingið samþykkti í gær að herinn fengi heimild til hernaðaraðgerða utan landamæra ríkisins. Ástæðan er aukin spenna í grannríkinu Líbíu.
Í samþykkt þingsins er Líbía ekki nefnd á nafn, en ekki fer á milli mála að samþykkt þingsins snýst um hugsanleg afskipti af átökunum þar.
Egyptar hafa ásamt Rússum og Sameinuðu arabísku furstadæmunum stutt líbíska stríðsherrann Khalifa Haftar og baráttu hans gegn alþjóðlega viðurkenndri stjórn í Trípólí. Tyrkir styðja hins vegar stjórnina í Trípólí.
Egyptar hafa gert loftárásir á andstæðinga Haftars í Líbíu undanfarin ár, en óttast er að átökin aukist til muna sendi þeir landher þangað og að til beinna átaka komi milli þeirra og Tyrkja.