Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bandaríski sendiherrann tístir um „Kínaveiruna“

21.07.2020 - 07:15
Mynd með færslu
Jeffrey Gunther ásamt forseta Íslands Mynd: Bandaríska sendiráðið
Jeffrey Ross Gunther, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, deildi tísti forseta Bandaríkjanna frá því í gærkvöld þar sem hann hvetur landa sína til að vera með grímu. Sendiherrann notar orðið „Kínaveiru“ yfir kórónuveirufaraldurinn og segir að „sameinuð sigrumst við“ á veirunni. Með tístinu lætur hann síðan fylgja mynd af bandaríska og íslenska fánanum.

Nokkrir Íslendingar hafa látið í ljós skoðun undir tísti sendiherrans og hvetja hann meðal annars til að fjarlægja íslenska fánann.

Trump hefur verið gagnrýndur fyrir að nota orðið „Kínaveiru“ yfir kórónuveirufaraldurinn og fyrir að hvetja ekki til grímunotkunar. Honum hefur nú snúist hugur um hið síðarnefnda. 

Trump segir í tísti sínu að mörgum þyki það bera vott um föðurlandsást að bera grímu þegar ekki sé möguleiki á að halda viðeigandi fjarlægð. „Enginn er meiri föðurlandsvinur en ég, uppáhalds forsetinn ykkar,“ skrifar Trump.

Forsetinn á undir högg að sækja fyrir forsetakosningarnar í haust en kannanir sýna að hann er langt á eftir Joe Biden, verðandi forsetaefni Demókrataflokksins.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV