340 skjálftar í nótt á Reykjanesi en engir stórir

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
340 skjálftar urðu á Reykjanesi í nótt en þeir voru allir undir 3 að stærð. Ein tilkynning barst frá íbúa í Grindavík sem kvaðst hafa fundið fyrir skjálfta. Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir ekki hægt að útiloka að það komi aftur stór skjálfti.

Jörð skalf svo um munaði á Reykjanesi í gær eftir stóran skjálfta upp á 5 á sunnudagskvöld.

Sólarhringinn á eftir mældust 23 skjálftar sem allir voru stærri en 3, þar af einn um 5 að stærð og annar yfir 4 .  Fundust skjálftarnir víða á Suðvesturhorninu.

Sigurdís segir að frá því að hrinan hófst hafi um 2.300 skjálftar komið fram á mælum Veðurstofunnar.  „Þetta er mjög mikil virkni og við verðum að fylgjast vel með í dag. Vonandi fer að draga úr þessu,“ segir Sigurdís.

Engin merki eru um gosóróa. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í gær að ólíklegt væri að eldgos yrði á Reykjanesskaga næstu ár eða áratugi þar sem enn væri mikil spenna í jarðskorpunni. Ómögulegt væri að segja til um hvað skjálftahrinan stæði lengi yfir.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi