
„Við náðum ekki neinu fram“
Deilt hefur verið meðal annars um vinnutíma skipverja á Herjólfi, en Sjómannafélagið fór fram á færri vinnustundir á mánuði og að áhöfnum yrði í því skyni fjölgað úr þremur í fjórar. Forsvarsmenn Herjólfs sögðu það jafngilda 25% launahækkun sem ómögulegt væri að verða við. Samþykktar voru þrjár vinnustöðvanir með viku millibili og átti sú þriðja að hefjast á miðnætti í kvöld og standa í þrjá sólarhringa.
Góðar líkur á að ná saman
Guðbjartur segir að gengið verði út frá Lífskjarasamningnum hvað varði styttingu vinnutímans og launahækkanir. Ítrekað hefur komið fram sú afstaða stjórnenda Herjólfs að þeir geti ekki orðið við kröfum Sjómannafélagsins. Spurður hvort breyting hafi orðið á því segir Guðbjartur að í upphafi hafi verið krafist kjarabreytinga í tíu liðum. Þeim hafi nú verið fækkað niður í fimm. „Það er búið að stytta bilið á milli manna þannig að það eru góðar líkur á að við náum saman fyrir 17. ágúst.“
Þessi fimm atriði eru:
- 1. Klára starfslýsingu þerna og háseta.
- 2. Skoða forsendur starfsaldurshækkana.
- 3. Skoða vinnutímastyttingu lífskjarasamningsins með sérfræðingum beggja aðila.
- 4. Skoða forsendur launahækkunar miðað við lífskjarasamning með sérfræðingum beggja aðila.
- 5. Koma á hvíldarákvæðum í samræmi við alþjóðalög.
Ætlum að reyna að komast til botns í þessu
„Við náðum ekki neinu fram. Það er bara þannig,“ segir Jónas. „En það náðist samkomulag um að fara í þessi fimm atriði sem að okkar mati eru brýnust. Við ætlum að reyna að komast til botns í þessu.“
Ein af helstu kröfum Sjómannafélagsins var að áhöfnum Herjólfs yrði fjölgað úr þremur í fjórar þannig að hver og ein ynni færri vinnustundir á mánuði. Spurður hvort sú krafa hafi náðst fram segir Jónas svo ekki vera. „Nei, það er algerlega út af borðinu, að minnsta kosti í bili.“
Áhrifin á ferðaþjónustuna vógu þungt
Ertu ánægður með þessa stöðu? „Nei, það get ég ekki sagt. Við hefðum viljað ljúka þessu á annan hátt. En þetta er komið í einhvern farveg og fólk talar saman. Þetta var besta lausnin á þessum tímapunkti og það vóg vissulega mest í okkar afstöðu hversu mikil áhrif raskanir á ferðum Herjólfs hafa á ferðaþjónustuna í Eyjum. Við viljum ekki að okkar aðgerðir hafi slæm áhrif á hana og ég tel að áhöfn Herjólfs hafi axlað meiri ábyrgð í þessu máli en stjórn Herjólfs hefur gert.“