Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Trump hvetur til grímunotkunar

20.07.2020 - 23:32
Donald Trump
 Mynd: Twitter - Skjáskot
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvetur nú landa sína til að bera andlitsgrímur til að varna kórónuveirusmiti. Hann birtir mynd af sér með grímu fyrir vitum sér á Twitter-síðu sinni og segir það bera vott um þjóðrækni.

„Við erum sameinuð í að berjast gegn ósýnilegu kínversku veirunni,“ skrifar Trump í færslu sinni. „Margir segja það bera vott um þjóðrækni að bera andlitsgrímu þegar því verður ekki við komið að halda fjarlægð á milli fólks. Enginn er þjóðræknari en ég - uppáhaldsforsetinn ykkar!“ skrifar Trump.

Meira en 3,7 milljónir Bandaríkjamanna hafa greinst með kórónuveirusmit, samkvæmt tölum John Hopkin háskólans sem heldur utan um tölfræði sem tengist COVID-19.  Meira en 140.000 hafa látist af völdum veirunnar í landinu, eða um 4% þeirra sem hafa greinst.

Forsetinn bar grímu í fyrsta skiptið á opinberum vettvangi fyrr í þessum mánuði, en þá hafði talsvert verið þrýst á hann að sýna gott fordæmi í baráttunni við COVID-19. Þá bar hann, líkt og nú, svarta grímu með merki forestaembættisins.