Telur svæðaskiptingu auka sveigjanleika í fiskeldi

20.07.2020 - 13:19
Arnarlax, Laxeldi Sjókvíar, Fiskeldi, Arnarborg, Iðnaður, Tálknafjörður. Dróni.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Tillaga Hafrannsóknastofnunar að afmörkun eldissvæða fyrir fiskeldi í Arnarfirði á Vestfjörðum er nú til auglýsingar hjá Skipulagsstofnun. Forstjóri fiskeldisfyrirtækis segir þetta bjóða upp á aukinn sveigjanleika í greininni.

Þetta er í fyrsta skipti sem Hafrannsóknastofnun leggur til afmörkun eldissvæða, en það er í samræmi við lög um fiskeldi sem samþykkt voru í fyrra. Stofnunin leggur til sjö afmörkuð svæði í firðinum sem miða við hámarksnýtingu mögulegra eldissvæða. Leyfilegt eldi á frjóum laxi í Arnarfirði er 29 þúsund tonn á ári.

Björn Hembre, forstjóri Arnarlax sem stundar fiskeldi í firðinum, segir fyrirtækið hafa beðið eftir því að yfirvöld stigu þetta skref.

„Ég tel að afmörkun eldissvæða komi sér vel fyrir okkur hjá Arnarlax og á endanum önnur fyrirtæki einnig. Þessu fylgir sá sveigjanleiki að hægt verður að færa eldiskvíarnar til innan afmarkaðra svæða, sem er til bóta,“ segir hann .

Engar áætlanir uppi um að færa kvína við Hringsdal

Ófyrirséð afföll urðu í vetur í sjókví fyrirtækisins við Hringsdal í Arnarfirði. Yfir 500 tonn af laxi drapst vegna lækkaðs hitastigs og slæms veðurs. Þá var erlenda sláturskipið Norwegian Gannet fengið til landsins til þess að aðstoða við slátrun. Lax drapst einnig á sama stað af sömu ástæðu 2018.

„Við höfum engar áætlanir um að færa kvína frá Hringsdal. Við tökum samt allt til skoðunar til þess að hámarka framleiðslu. Ef það kemur í ljós að betra væri að hafa kvína annars staðar þá munum við að sjálfsögðu taka það til greina,“ segir Hembre.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi