Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sumir gátu ekki sofið - aðrir veltu sér á hina hliðina

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Það reyndist mörgum íbúum Grindavíkur erfitt að festa svefn í nótt eftir snarpa skjálftann þar í gærkvöld. Sumir hugleiddu að flýja út í bíl - aðrir veltu sér á hina hliðina og lúrðu áfram.

Þrátt fyrir jarðskjálftana gengur lífið sinn vanagang í Grindavík en sumir sváfu lítið í nótt.

„Ég vaknaði við þennan stóra klukkan hálf tólf í gærkvöldi. Og ansi óþægilegt og það var svo sem ekki mikið sofið eftir það. Mér finnst þetta ansi óþægilegt. Ég verð alveg að viðurkenna það. Maður var svona að reyna þegar þetta byrjaði í vetur að vera svolítið kúl en ég skal viðurkenna það að mér finnst þetta mjög óþægilegt. Ætli það sé ekki þessi óvissa, þú veist ekkert hvað er að koma, hversu stór hann verður og hversu langur hann verður og það eru bara þessi rosalegu öfl sem maður hefur enga stjórn á. Það kom alveg smá stund svona móment þar sem ég var að hugsa hvort ég ætti að fara hreinlega út í bíl eða hjólhýsi og sofa þar,“ segir Alda Agnes Gylfadóttir.

Arnfinnur Antonsson fann fyrir skjálftum í gærkvöldi og nótt. „Ég var bara að fara að sofa. Það var ekkert öðru vísi,“ segir Arnfinnur.

Varstu skelkaður?

„Nei, ég hallaði mér bara á hina hliðina. Auðvitað skelfur vel fyrir norðan líka. Ég var norður á Akureyri þegar stóri skjálftinn varð það. Manni fannst það eiginlega meira en þetta. Hann svo langur þar,“ segir Arnfinnur.

Festarfjall er skammt frá upptökum skjálftanna. Ómar Davíð Ólafsson var að mynda þar með dróna í morgun þegar jörðin skalf.

„Eftir stóra skjálftann í gærkvöldi þá tókum við eftir því að það hrundi svakalega úr berginu í fjallinu og það var allt í ryki og það sást varla í bergið. Þannig að ég fór að kíkja í morgun og akkúrat þegar ég var að fljúga þarna þá kom skjálfti upp á 4,2 en var svo reyndar  3,9 en það sást alveg greinilega hvað hrundi úr,“ segir Ómar.

Þannig að þú þannig lagað dast í lukkupottinn, varst akkúrat að dróna þegar jörðin skalf?

„Já, ég var bara eiginlega að snúa við og fara til baka þegar ég fann að það hristist undan mér og fjöllin alveg, það drundi í fjöllunum og ég sneri við strax,“ segir Ómar. 

Hvernig varð þér við?

„Maður venst þessu eiginlega aldrei. En þetta er aðeins skárra en þegar þetta byrjaði í vetur. Maður er hættur að kippa sér upp við þetta,“ segir Ómar.

Árni Margeirsson var kominn upp í rúm þegar stóri skjálftinn kom. 

„Ég var bara kominn upp í rúm. Krakkarnir rumskuðu við það, voru sofnaðir,“ segir Árni.

Urðu krakkarnir eitthvað hræddir?

„Nei, nei, það eru allir orðnir vanir þessu. Sumum finnst þetta náttúrulega óþægilegt. Það væri allt í lagi að vera laus við þetta,“ segir Árni.

„Við búum í gömlu timburhúsi þannig að það hristist dálítið vel hjá okkur. Við vorum bara ennþá á sófanum, vorum að horfa á sjónvarpið. Ég var eiginlega að sofna. Það var ekkert rosalega gaman að vakna við þetta. Hann var svolítið stór þá. Ég skal alveg viðurkenna að ég var svolítið smeyk,“ segir Ögn Þórarinsdóttir. Maður hennar, Elías Már Ragnarsson, er á öðru máli.

„Þetta var bara spennandi.  Já, já, bara hressandi svona,“ segir Elías.

Og það var nóg að gera á bryggjunni og þorskurinn virtist brýnna umhugsunarefni en tal um jarðskjálfta.

Heyrðu við ætluðum að fá að spyrja þig út í skjálftann?

„Hvaða skjálfta?“ spyr Jóhann Guðfinnsson. 

Fannstu ekki skjálftann?

„Nei, ég var úti á sjó hann finnst ekki úti á sjó. Maður finnur ekkert fyrir þessu úti á sjó. Er fólk ekki farið að venjast þessu bara?,“ spyr Jóhann.

1700 skjálftar á innan við sólarhring

 

Jörð tók að skjálfa á ný í Grindavík á laugardagsmorgun en dregið hafði úr jarðhræringum sem hófust við fjallið Þorbjörn í janúar. Í gærkvöldi gerðust svo jarðhræringarnar stórtækari og þegar klukkuna vantaði tuttugu og fjórar mínútur í miðnætti í gærkvöldi varð skjálfti að stærðinni 5,1 sem fannst mjög vel í Grindavík og víða á Suður- og Vesturlandi. Í janúar urðu flestir skjálftar við fjallið Þorbjörn sem er rétt við þéttbýlið í Grindavík en núna hefur virknin fært sig átta kílómetra í austurátt. Upptök stóra skjálftans í gærkvöldi voru þrjá kílómetra norður af Fagradalsfjalli. 

Þá varð snarpur skjálfti þegar klukkan var tuttugu og þrjár mínútur yfir sex í morgun og reyndist hann vera fimm að stærð. Um sautján hundruð skjálftar urðu frá klukkan ellefu í gærkvöldi fram til klukkan þrjú í dag.  

„Þetta er sú fjórða í röðinni held ég frá því í janúar síðstliðinn. Þannig að við getum sagt að við séum að einhverju leyti vön þessu. En þetta kemur samt óþægilega við marga að fá svona öfluga skjálfta. Þetta er stærsti skjálftinn sem hefur komið á þessu ári sem reið yfir rétt fyrir miðnætti í nótt,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. 

Kallar þetta á einhver viðbrögð af hálfu bæjarins?

„Við höfum undirbúið mjög vel það sem kynni að koma í kjölfar svona skjálfta með því að gera viðbragðsáætlanir og rýmingaráætlanir og annað slíkt. Þetta er allt saman tilbúið,“ Fannar.

Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar eru jarðhræringarnar nú hluti af jarðskjálftavirkninni sem hófst í janúar. Líklegasta skýringin séu sú að síðan þá hafa orðið kvikuinnskot undir Þorbirni og við þau verður til spenna í jarðskorpunni sem losnar út með skjálftum. Ekki sé hægt að útiloka að kvika sé á hreyfingu á miklu dýpi undir jarðskorpunni en engin merki séu um að kvikan nálgist yfirborðið eða að hún sé ástæða skjálftanna nú. Með öðrum orðum, ekkert bendi til eldgoss í náinni framtíð.