Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
Skriður féllu víða um helgina
20.07.2020 - 15:23
Innlent · Blönduós · Bolungarvík · Grjóthrun · Ísafjarðarbær · Náttúra · norðurland vestra · Óveður · Sauðárkrókur · Siglufjörður · Skriðufall · Skriðuföll · veður · Veðurstofa Íslands · Vestfirðir · Veður
Skriður féllu á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra í óveðrinu um helgina. Veðurstofan og Vegagerðin höfðu varað við hættu á skriðum og grjóthruni á vegum og ráðið vegfarendum frá því að ferðast um tiltekna fjallvegi.
Í Bolungarvík og dölunum þar í kring urðu skriðuföll og grjóthrun, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Veginum upp Bolafjall var lokað af öryggisástæðum.
Þá urðu hreyfingar á Ísafirði, við Gleiðarhjalla ofan við Ísafjarðarbæ. Þar féllu skriðutaumar og heilmiklir hnullungar. Engin hætta skapaðist fyrir byggðina, enda vel varin ofanflóðavörnum.
Grjót og skriður féllu einnig ofan við Súgandafjörð og veginum frá Suðureyri út í Staðardal var lokað vegna vatnavaxta.
Þá var Skagavegi við Laxárdal milli Blönduóss og Sauðárkróks lokað eftir að aurskriða féll á veginn, og það sama má segja um veginn út á Reykjaströnd. Þá bárust Veðurstofu tilkynningar um grjóthrun á Siglufirði.