Mynd: RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.
Sitja á fundi í Herjólfsdeilunni
20.07.2020 - 17:22
Fulltrúar Herjólfs og Sjómannafélags Íslands sitja nú á samningafundi, en verkfall undirmanna á Herjólfi, sem eru félagar í Sjómannafélagi Íslands, er fyrirhugað á miðnætti í kvöld. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, staðfestir við Fréttastofu RÚV að fundur standi nú yfir, en engar frekari upplýsingar fengust af gangi viðræðna.
Í samtali við Fréttastofu fyrr í dag sagði Guðbjartur að kæmi til verkfalls yrði gamli Herjólfur notaður til að sigla fjórar ferðir á dag þá þrjá daga sem verkfallið ætti að standa. Í tilkynningu frá Herjólfi segir að lágmarksþjónusta verði veitt um borð og engin þjónusta verði í kaffiteríu skipsins.
Verkfallið sem nú er boðað yrði þriðja verkfallið sem undirmenn á Herjólfi sem eru í Sjómannafélagi Íslands, fara í. Það fyrsta hófst á miðnætti 7. júlí og stóð í einn sólarhring, það næsta á miðnætti 14. júlí og var í tvo sólarhringa. Verkfallið sem boðað hefur verið á miðnætti í kvöld á að standa í þrjá sólarhringa, til miðnættis 23. júlí.