Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir vegabætur nauðsyn vegna aukinnar umferðar

Mynd með færslu
 Mynd: Sigþrúður Stella Jóhannsdót
Nauðsynlegt var að gera endurbætur á veginum í Vesturdal sunnan Hljóðakletta innan Vatnajökulsþjóðgarðs því búist er við að umferð þar margfaldist á næstu árum. Þetta segir Guðmundur Ögmundsson þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum. Hann segir að ákvörðunin hafi verið alfarið á hendi Vegagerðarinnar - stjórn þjóðgarðsins hafi ekki komið að henni.

Fyrrverandi þjóðgarðsvörður á svæðinu, Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, sagði í samtali við Fréttastofu í gær að lagning vegarins væri mistök, hann væri of hár og gnæfði yfir svæðið. 
Guðmundur segir að þetta sé ekki nýr vegur, heldur hafi verið gerðar endurbætur á þeim sem fyrir var.  Vegurinn hafi ekki verið breikkaður að öðru leyti en því að bætt var við hann útskotum til að bílar gætu mæst. Það hafi verið ákvörðun Vegagerðarinnar.

„Samkvæmt þeim hefði ekki verið hægt að hafa hann lægri því að þá á hann á hættu á að skemmast í vatnavöxtum. Við sjáum það náttúrulega með Dettifossveginn sem liggur þarna framhjá að það er viðbúið að öll sú umferð sem hefur verið bæði við Dettifoss og svo að austanverðu muni mikið til flytjast vestur fyrir ána. Og þá mun umferðin fara þarna niður framhjá Hljóðaklettum og það er alveg viðbúið að stór hluti af þeim sem fara um þennan veg fari þessa leiðina og vilji þá koma við á þessum stað,“ segir Guðmundur.

Á að falla sem best að landslaginu

Hann segir að vegurinn hafi verið hannaður þannig að hann falli sem best að landslaginu. Kantar hans verði klæddir gróðri og búist sé við að hækkunin verði nánast ósýnileg eftir nokkur ár. Hafa verði í huga að framkvæmdir standi enn yfir. 

„Þetta mun gjörbreytast þegar framkvæmdunum verður lokið og búið að ganga frá svæðinu, klæðningin komin á veginn og búið að ganga frá köntum. Það er eiginlega ekkert marktækt að horfa á þetta núna,“ segir Guðmundur.