Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Saumaði þrjú þúsund poka til að draga úr plastnotkun

20.07.2020 - 15:06
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Margrét Valgeirsdóttir - RÚV
Nokkrar konur á Blönduósi hafa frá árinu 2017 hist reglulega og saumað fjölnota poka sem staðið hafa viðskiptavinum Kjörbúðarinnar til boða í stað þess að kaupa plastpoka. Nú þremur árum og 3.000 pokum síðar er verkefninu lokið.

Plastpokalaust samfélag

Verkefnið sem kallast, Blönduós, plastpokalaust samfélag, fór af stað á haustdögum ársins 2017 og voru fyrstu pokarnir afhentir Kjörbúðinni í nóvember sama ár. 

Mikil velvild íbúa

Anna Margrét Valgeirsdóttir átti frumkvæðið að verkefninu en hún tilkynnti nýverið á Facebook að hún væri nú formlega hætt pokasaumskapnum. Hún segir bæjarbúa hafa tekið verkefninu vel. 

„Það voru tæplega tuttugu íbúar hérna á staðnum sem hjálpuðu til við saumaskapinn og fólk tók þessu almennt bara mjög vel. Við náðum að sauma þrjú þúsund poka og hér búa um níu hundruð manns svo ég held að það ættu að vera til fjölnota pokar á hverju heimili,“ segir Anna. 

Markmiðinu náð

Þrátt fyrir að ekki hafi tekist að útrýma plastpokum á Blönduósi segir Anna að markmiði verkefnisins hafi verið náð. 

„Við vildum fyrst og fremst vekja fólk til umhugsunar og sýna fram á að það þyrfti ekki að kaupa plastpoka þegar það færi í búðina. Ég er sannfærð um að það hafi tekist. Þetta fékk fólkið í bænum til að hugsa um plastnotkun sem er rosalega jákvætt,“ segir hún.  

Þrátt fyrir að verkefninu sé lokið er Anna hvergi nærri hætt að sauma. 

„Nei, nei, ég hætti því aldrei, ætli ég fari ekki að sauma föt á barnabörnin núna. Ég er aldrei verkefnalaus.“