Safna frásögnum af hvítabjörnum

Mynd með færslu
 Mynd:

Safna frásögnum af hvítabjörnum

20.07.2020 - 20:06

Höfundar

Þjóðminjasafnið hefur komið á fót nýrri spurningaskrá þar sem fólk er hvatt til þess að senda inn frásagnir um hvítabirni. Tilgangurinn er að safna minningum fólks um ísbirni. Spurningaskráin er liður í verkefninu Ísbirnir á villigötum, sem er þverfræðilegt rannsóknarverkefni sem stýrt er af Bryndísi Snæbjörnsdóttur, prófessor við myndlistardeild LHÍ, og Mark Wilson, prófessor við University of Cumbria.

Auk þeirra taka Kristinn Schram, þjóðfræðingur, og Æsa Sigurjónsdóttir, listfræðingur, þátt í verkefninu. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á fjölþættum tengslum dýra og fólks og umhverfis á tímum loftslagsbreytinga. Fréttastofa náði tali af Kristni Schram en hann segir að þrátt fyrir að verkefnið sé þverfaglegt, sé það unnið út frá sjónarhóli samtímalistar. „Það er einnig heilmikil þjóðfræði í þessu. Við skoðum samverkandi áhrif loftslagsbreytinga, til dæmis á fólksflutninga og umhverfisrof. Núna erum við að safna saman textum, myndum, hljóði og lífsýnum sem tengjast ferðum ísbjarna til landsins,“ segir hann.

Hópurinn er í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands sem nú hefur gert fyrrgreinda spurningaskrá aðgengilega. Öllum er frjálst að svara og hægt er að óska nafnleyndar. Einnig er í boði að svara munnlega með því að senda hljóðupptöku til safnsins. Kristinn og samstarfsfólk hans hefur einnig ferðast um landið í því skyni að safna sögum frá fólki sem hefur með beinum hætti haft kynni af hvítabjörnum. Einnig skoðar hópurinn hvernig þeir birtast í sögum og heimildum. 

Hvítabjörninn ekki velkominn til Íslands

Aðspurður hvort hvítabirnir séu stór hluti af sjálfsmynd Íslendinga segir Kristinn að þeir séu það í auknum mæli. „Við erum sífellt að taka á okkur einkenni norðurslóða og ímyndarsköpun íslendinga er í auknum mæli á þá leið að við séum norðurslóðaþjóð,“ segir hann.

Kristinn telur sömuleiðis að ímyndarsköpun Íslands sem ferðamannastaðar hafi áhrif. „Norðurslóðir er eitthvað sem ferðamenn sækja í. Við sjáum til dæmis að hvítabjörninn er orðinn að minjagrip og er seldur víða um land sem slíkur,“ segir Kristinn.

Hann segir þó mun á sýnd og reynd enda eru Íslendingar ekki sérlega gestrisnir þegar hvítabirni ber að garði. „Á hinn bóginn er hvítabjörninn sjálfur ekki velkominn. Þegar hann kemur þá er honum fargað.“ Kristinn nefnir einnig að hvítabjörninn sé tákn fyrir loftslagsbreytingar og bráðun íss sem þeim fylgir. 

Kristinn segir að þverfræðilegt samstarf milli lista og fræðigreina sé afar mikilvægt. Hann segir að útkoma rannsóknarinnar muni skila sér jafnt í listsýningum sem og fræðigreinum. Kristinn segir að hópnum hafi alls staðar verið tekið vel og að þegar hafi borist frásagnir um kynni við hvítabirni. „Flestar eru þær frá Norðurlandi og Ströndum á Vestfjörðum.“ segir hann.  

Tengdar fréttir

Norðurland

Leituðu hugsanlegs hvítabjarnar á Skaga

Myndlist

Loftslagskvíði – og hvað svo?

Bókmenntir

Siðmenningin frá sjónarhóli ísbjarna