Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Prófanir á bóluefni gegn kórónuveirunni lofa góðu

20.07.2020 - 14:12
epa08556527 (FILE) - One of the first South African vaccine trialists gets injected during the clinical trial for a potential vaccine against the Covid-19 Corona virus at the Baragwanath hospital in Soweto, South Africa, 24 June 2020 (reissued 20 July 2020). Early phases of testing for a coronavirus vaccine suggest a positive result in immune reaction, scientists at Oxford University said 20 July 2020.  EPA-EFE/SIPHIWE SIBEKO / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Reuters
Prófanir á nýju bóluefni gegn kórónuveirunni sem veldur COVID-19 þykja hafa skilað viðunandi árangri. Vísindamenn við Oxfordháskóla þróuðu lyfið og prófuðu á 1.077 manns. Niðurstaðan varð sú að það efldi ónæmiskerfi þeirra sem fengu það og fjölgaði hvítum blóðkornum sem berjast gegn veirunni.

Enn á þó eftir að prófa bóluefnið enn frekar áður en hægt verður að fullyrða að það veiti nægjanlega vernd gegn veirunni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Áætlað er að yfir tíu þúsund manns taki þátt í öðrum hluta prófunarinnar.

Annað bóluefni sem prófað var á fimm hundruð manns í Kína þykir einnig lofa góðu, að því er kemur fram í læknatímaritinu The Lancet. Þörf er á víðtækari prófunum, einkum á fólki sem komið er til ára sinna.

Breska stjórnin hefur tryggt sér aðgang að níutíu milljón skömmtum af bóluefni gegn veirunni frá fyrirtækjunum BioNTech, Pfiser og Valneva. Opnaður hefur verið vefur þar sem fólk getur skráð sig vilji það taka þátt í prófunum á lyfjunum.

Soumya Swaminathan, yfirmaður vísindasviðs Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, kvaðst í dag vera vongóð um að hægt yrði að byrja að bólusetja fólk gegn kórónuveirunni um mitt næsta ár. Tuttugu gerðir þess væru í þróun og það yrðu veruleg vonbrigði ef að minnsta kosti tvö þeirra yrðu ekki nothæf.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV