Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óvíst um endurráðningar flugfreyja

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór - RÚV
Uppsagnarfrestur um 90% þeirra 900 flugfreyja Icelandair sem sagt var upp í lok apríl rennur út núna um mánaðamótin. Ekki liggur fyrir hvort eða hversu margar uppsagnir verða dregnar til baka. Guðlaug Líney Jóhannsdóttir formaður Flugfreyjufélags Íslands segir að það liggi í augum uppi að draga þurfi hluta uppsagnanna til baka.

Icelandair tilkynnti 28. apríl að rúmlega 2.000 starfsmönnum félagsins yrði sagt upp störfum og að þeir sem eftir yrðu hjá félaginu yrðu ýmist í skertu starfshlutfalli eða á skertum launum.

Meðal þeirra sem sagt var upp voru 900 af þeim 940 flugfreyjum sem þá störfuðu hjá Icelandair. Uppsagnarfrestur þeirra er mislangur, Guðlaug segir að hjá flestum þeirra, eða um 90%, sé hann þrír mánuðir, hjá flugfreyjum sem eru 55 ára og með tíu ára eða lengri starfsaldur, sé hann lengri og geti verið allt að sex mánuðir. „Ég vænti þess að þeir sem lengst hafa starfað hjá félaginu og eru þess vegna með lengsta uppsagnarfrestinn verði ráðnir fyrst inn,“ segir Guðlaug.

Bíða spennt eftir að heyra frá stjórnendum Icelandair

Hún segir að miðað við þá flugáætlun sem Icelandair hafi lagt fram sé ljóst að draga þurfi hluta uppsagnanna til baka til þess að hægt verði að manna vélarnar. „Þannig að við bíðum bara spennt eftir að heyra frá stjórnendum félagsins. Það hlýtur að verða fyrir mánaðamótin,“ segir Guðlaug.

Samningar náðust á milli Icelandair og Flugfreyjufélagsins um helgina eftir að félagið hafði sagt þeim flugfreyjum sínum upp, sem ekki var sagt upp í apríl, frá og með næstu mánaðamótum. Uppsagnirnar voru afturkallaðar í kjölfar þess að samningar náðust og hann var kynntur félagsmönnum í Flugfreyjufélaginu í morgun.

Guðlaug segist vita til þess að nokkur hluti þeirra flugfreyja sem klára uppsagnarfrest sinn núna um mánaðamótin sé kominn í annað starf. „Þetta er stór og fjölbreyttur hópur með ýmis konar reynslu og menntun sem á kost á mörgum störfum.“