Ósigraðar Fylkiskonur í þriðja sæti

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Ósigraðar Fylkiskonur í þriðja sæti

20.07.2020 - 21:15
Tveir leikir voru á dagskrá síðari hluta kvölds í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta. Fylkiskonur fóru upp í þriðja sæti deildarinnar.

Fylkir hafði aðeins leikið fjóra leiki fyrir heimsókn Stjörnunnar í Árbæinn í kvöld eftir að liðið fór í sóttkví á dögunum. Liðið gat þó farið upp fyrir bikarmeistara Selfoss í þriðja sæti deildarinnar með sigri.

Eva Rut Ásþórsdóttir kom Fylki í forystu eftir rúmlega hálftíma leik og 1-0 stóð í leikhléi í Lautinni. Það tók Örnu Dís Arnþórsdóttur þó aðeins tíu mínútur að jafna fyrir Stjörnuna eftir hlé en stundarfjórðungi síðar fékk liðsfélagi hennar Shameeka Fishley að líta rautt spjald. Þrátt fyrir að vera tíu gegn ellefu voru Stjörnukonur hættulegri aðilinn en það voru þó Fylkiskonur sem skoruðu þriðja og síðasta mark leiksins er Bryndís Arna Níelsdóttir tryggði liðinu sigur þremur mínútum fyrir leikslok.

Eftir sigurinn er Fylkir með ellefu stig eftir fimm leiki í þriðja sæti deildarinnar, fimm stigum frá toppliði Vals sem hefur leikið einum leik fleira. Stjarnan tapar sínum fjórða leik í röð og er með sex stig, líkt og ÍBV og Þór/KA.

Dramatík í Vesturbæ

Í Vesturbæ Reykjavíkur tók KR á móti nýliðum Þróttar frá Reykjavík. KR þurfti á þremur stigum að halda en liðið var ásamt FH í fallsætunum með þrjú stig. KR var ívið sterkari aðilinn í nokkuð jöfnum fyrri hálfleik en markalaust var að honum loknum.

Það voru gestirnir úr Laugardal sem voru fyrri til að skora en þar var að verki Ólöf Sigríður Kristinsdóttir sem skoraði stundarfjórðungi fyrir leikslok, aðeins tíu mínútum eftir að hafa komið inn af varamannabekknum. 1-0 stóð fram á 91. mínútu þegar reynsluboltinn Hlíf Hauksdóttir jafnaði fyrir KR. Strax í næstu sókn fékk Angela Beard upplagt tækifæri til að stela stigunum þremur fyrir KR en skaut boltanum framhjá marki Þróttur. 1-1 jafntefli því úrslit leiksins.

KR er með fjögur stig í níunda sæti en Þróttur er með sex stig eftir jafnteflið.