„Nú má mamma vera hrædd“

20.07.2020 - 15:39
Mynd: Sólveig Klara Ragnarsdóttir / RÚV
„Þetta er bara svona, við búum hérna,“ segir Kristín Arnberg, Grindvíkingur til síðustu 40 ára. Henni finnast jarðhræringarnar í grennd við Grindavík vera óhugnanlegar og finnst hún hálf máttlaus þegar stórir skjálftar ríða yfir.

„Ég er búin að búa við þetta í öll þessi ár og auðvitað er manni ekkert sama,“ sagði hún í viðtali við Sólveigu Klöru Ragnarsdóttur fréttamann í verslun í Grindavík í morgun.

„Ég sagði við börnin mín sem eru öll upp komin: Nú eruð þið orðin fullorðin og nú má mamma vera hrædd. Af því að maður þarf svolítið, gagnvart barnabörnum og börnum, þá verður maður að halda andliti þó maður sé svolítið taugaóstyrkur.“

Kristín segist hringja í börnin sín og barnabörn þegar stórir skjálftar ríða yfir og athuga hvernig þau hafa það. „Ég vona bara að þessu fari að linna. Eða að það fari að gubba upp einhvers staðar þannig að það sé hægt að klára þetta,“ segir hún.

Venst þessu aldrei

„Ég var heima og var eiginlega sofnuð þegar þessi stóri kom,“ segir hún um stóra skjálftann. Stærsti skjálftinn sem mældist í nótt var heilir 5 af stærð og svo virðist sem hann hafi hrundið hrinunni af stað. Síðan á miðnætti hefur jörðin skolfið nær látlaust. Snemma í morgun urðu jarðskjálftar af stærðunum 4,6 og 4,3.

„En ég náði að sofna og svaf í nótt þar til í morgun. Eftir að ég fór á fætur var þetta eiginlega bara non-stop í allan morgun. En eins og ég segi þá venst maður þessu aldrei. Þetta er bara óhugnanlegt,“ segir Kristín. „Ég varð ekki beint hrædd, heldur verður maður bara hálf máttlaus.“

Pakkaði í töskur

„Í vetur, þið vitið náttúrlega hvernig þetta var. Þá var náttúrlega viðbragðsáætlun virkjuð. Svo kom COVID og þá datt allt niður. Svo um leið og það fór að hægjast um þá byrjar maður aftur á skjálftavaktinni,“ segir Kristín.

Spurð hvort hún hafi gert einhverjar ráðstafanir vegna skjálftanna í vetur segist hún hafa pakkað ofan í töskur. „Já, ég pakkaði niður í tösku. Og svo ætlaði ég að fara að taka aftur upp úr töskunum og þá byrjaði þetta allt aftur.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi