Samningar náðust milli Icelandair og Flugfreyjufélagsins aðfaranótt sunnudags og voru uppsagnirnar dregnar til baka. Nýi kjarasamningurinn var kynntur félagsmönnum á fundi klukkan ellefu í morgun.
Alma Ómarsdóttir ræddi við Guðlaugu skömmu eftir að fundi lauk upp úr hádegi. Guðlaug segir þungt hljóð í mörgum félagsmönnum. „Það er ljóst að margir eru í sárum eftir atburði síðustu daga. Nú er þetta í höndum félagsmanna og tíminn mun leiða það í ljós hverju það mun skila,“ segir Guðlaug.
Flugfreyjur kolfelldu kjarasamning við Icelandair fyrr í mánuðinum og fyrir liggur að nýi samningurinn er ekki mjög frábrugðinn. Guðlaug segir hins vegar að nú sé uppi breytt staða. „Það er nokkuð ljóst að staðan er allt önnur. Við erum með þessu að standa vörð um að við höfum eitthvað um okkar kjör að segja,“ segir Guðlaug. Hún segist vongóð um að félagsmenn samþykki nýja kjarasamninginn.