Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Málið er miklu stærra en Icelandair“ 

Mynd með færslu
 Mynd:
„Málið er miklu stærra en Icelandair. Það snýst um samningsrétt fólks í landinu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um framgöngu Icelandair gagnvart Flugfreyjufélagi Íslands.

Hann segir mikilvægt að koma í veg fyrir að fyrirtæki geti, í krafti stöðu sinnar, hætt að semja við verkalýðshreyfinguna og fært sig eitthvað annað, jafnvel til félaga sem stjórnendur fyrirtækja hafa sjálfir milligöngu um að stofna. Það stefni í hættu stéttabaráttunni eins og við þekkjum hana í dag.

Beita sér gegn þátttöku Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í hlutafjárútboði

Stjórn VR sendi frá sér yfirlýsingu síðasta föstudag þar sem hún biðlaði til stjórnarmanna sem félagið skipaði í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku lífeyrissjóðsins í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. 

Yfirlýsingin var birt eftir að Icelandair sleit viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands um kjarasamning og lýsti því yfir að félagið myndi snúa sér til annars viðsemjanda á íslenskum vinnumarkaði.  

Félagsmenn ósáttir

Fréttastofan ræddi í gær við tvo félagsmenn VR sem starfa hjá Icelandair og lýstu yfir óánægju með yfirlýsinguna. Til dæmis var haft eftir Ástu Benónýsdóttur, deildarstjóra á þjónustusviði Icelandair, að með þessu væri félagið að vinna gegn hagsmunum flugfélagsins og tefla störfum félagsmanna VR í hættu. Hún sagði að skrifstofufólk hefði tekið á sig töluverðar launalækkanir og annars konar kjaraskerðingu. Þá gagnrýndi hún Ragnar fyrir að hafa ekki stigið fram þegar fólki sem starfar á skrifstofum Icelandair var sagt upp í vor.

„Það verður aldrei 100 prósent ánægja“

Aðspurður hvort yfirlýsinguna megi túlka sem aðför að störfum félagsmanna VR sem starfa hjá Icelandair, annarra en flugfreyja, segir Ragnar að fólk geti vel upplifað það þannig. Þá segir hann að breidd VR og fjölbreytni starfa félagsmanna geri það að verkum að félagsmenn greini gjarnan á um aðgerðir stéttarfélagsins. „Það verður aldrei 100 prósent ánægja með það sem við gerum.“ Þeir sem séu óánægðir með yfirlýsinguna séu hærra í tekjustiganum en flugfreyjur.  

Fundaði með stjórnendum Icelandair í vor 

Aðspurður hvort hann hefði átt að beita sér í ríkara mæli fyrir félagsmenn sem misstu vinnuna eða tóku á sig kjaraskerðingu í vor segir Ragnar að hann hafi fundað með stjórn Icelandair í vor og lýst áhyggjum sínum af stöðunni. „Síðan hafa allar okkar aðgerðir verið í nafni þess að verja tilverurétt og stöðu okkar fólks,“ segir hann. 

Óráðlegt að taka þátt með núverandi stjórn Icelandair við völd 

Ragnar segist vona að flugfélagið lifi af: „Það vill ekki nokkur maður að félagið fari í þrot. En það er ekki sama hvernig þetta er gert. Það skiptir máli hvernig fyrirtækinu er bjargað. Það má ekki kosta okkur samningsréttinn.“ Aðspurður hvort hann standi við yfirlýsinguna þrátt fyrir að samningur hafi verið undirritaður segist Ragnar telja óráðlegt að lífeyrissjóðir taki þátt í hlutafjárútboði Icelandair með núverandi stjórn og stjórnendateymi flugfélagsins við völd.