Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Höfðar til samvisku leiðtoganna

20.07.2020 - 19:24
Mynd: EPA-EFE / AP POOL
Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins lagði síðdegis fram nýja miðlunartillögu í tilraun til að leysa ágreining á leiðtogafundi sambandsins.

Fundurinn hefur staðið í Brussel frá því á föstudag en illa hefur gengið hjá leiðtogunum að koma sér saman um fyrirkomulag bjargráðasjóðs til Evrópusambandsríkja vegna kórónuveirufaraldursins. Á fundinum stendur einnig til að samþykkja fjárhagsáætlun sambandsins til næstu sjö ára. 

Fundað er fjórða daginn í röð og ef fundurinn dregst fram á morgundaginn ná þau að jafna lengsta leiðtogafundinn til þessa. Hann fór fram í Nice í Frakklandi fyrir 20 árum síðan. Þá var verið að ræða ýmiss konar breytingar á stofnunum sambandsins, og vægi atkvæða aðildarríkja svo fátt eitt sé nefnt. Nú er þráttað um peninga. 

Bjargráðasjóður upp á 750 milljarða evra er undir og deilan stendur um hvernig eigi að útdeila. Hversu stór hluti eigi að vera í formi styrkja og hversu stór í formi lána. 

Hetja heimafyrir

Það hefur gengið á ýmsu á fundinum. Það bárust meðal annars fregnir af því að í morgun hafi Emmanuel Macron, forseti Frakklands, barið í borðið  og hótað að ganga á dyr. Óánægja hans beindist að sparsömu fylkingunni, Austurríki, Hollandi, Svíþjóð og Danmörk, og nú einnig Finnlandi. Þau vilja að hærra hlutfall verði lán en ekki styrkir. 

Spjótin standa öðrum fremur á Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, í þessum sparsama hópi. Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu á að hafa sagt við Rutte í dag að þessi mótstaða myndi kannski skila honum því að vera álitin hetja heima fyrir í nokkra daga, en í framtíðinni yrði hans minnst sem mannsins sem stóð í vegi fyrir almennilegum hjálparaðgerðum Evrópusambandsins. 

Og Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, höfðaði einnig til samvisku leiðtoganna og minnti á að 600 þúsund hefðu látist úr kórónuveirunni í heiminum. Þó þau væru ekki þarna til að finna lækningu við veirunni, þá væri mikilvægt að koma sér saman um aðstoð.