Hjartaáfallið reyndist vera harðsperrur

Mynd: Sigurjón J. Sigurðsson / Facebook

Hjartaáfallið reyndist vera harðsperrur

20.07.2020 - 15:02

Höfundar

„Ég skammaðist mín svo,“ segir Jörundur Jökulsson sem fór í örlagaríka skíðaferð með vini sínum til Ítalíu. Jörundur var fluttur burt með sjúkraþyrlu því hann var hræddur um að vera að fá hjartaáfall. Meinið reyndist svo síður en svo alvarlegt.

Í þættinum Hnit í umsjón Brynju Þorgeirsdóttur ræður tilviljun vali viðmælanda þar sem Brynja opnar kort á netinu og velur íslenskt staðarhnit af handahófi. Á hnitinu 64 gráður og sex mínútur norður; og 22 gráður og tvær mínútur vestlægrar lengdar, fann hún Jörund Jökulsson frá Vatni í Haukadal. Hann býr á Álftanesi, er hestamaður og mikill söngfugl. Hann er ekki eins lunkinn á skíðum en fór þrátt fyrir það eitt sinn í örlagaríka skíðaferð með félaga sínum Kristjáni Þórarinssyni. „Hann biður mig að koma með, segir að konan nenni ekki þetta árið, svo hann er að spá hvort ég komi ekki með. Ég sagði eins og var að ég hefði rennt mér á skíðum síðast fyrir þrjátíu árum og kynni þetta alveg,“ rifjar Jörundur upp. Þeir kaupa sér ferð til Ítalíu en börnum Jörundar líst illa á blikuna. „Þau segja þú ert allt of feitur og með ekkert úthald en ég fer samt. Ég lofaði þeim að kaupa kennslu og brynju og hjálm,“ segir Jörundur sem græjaði sig almennilega upp fyrir ferðina. 

„Hvað er ég búinn að koma mér út í?“

Á flugvellinum á Ítalíu keyptu félagarnir sér drykki og svo var haldið af stað á hótelið þar sem þeir settust á barinn og kynntust barþjóninum sem reyndist vera alsírskur og mikið góðmenni. Eftir spjall við nýja vin sinn héldu þeir upp á hótelherbergi þar sem þeir komust að því að þar var aðeins eitt rúm og ein sæng sem þeir slógust um um nóttina. Þeir vöknuðu spenntir fyrsta skíðadaginn, leigðu sér skíði og svo hitti Jörundur skíðakennarann sem kenndi honum réttu tökin. „Þetta var allt öðruvísi en á Ísafirði. Ég renndi mér tvær þrjár bunur og fer svo upp með lyftunni.“ Jörundur tók strax eftir ótrúlegri náttúrufegurð sem blasti við. En þegar upp í fjallið var komið leist Jörundi ekki á blikuna en hann komst heill niður brekkuna, þó ekki áfallalaust. „Ég kútveltist þarna, missti skíðin og varð móður. Ég hugsaði hvað var ég að koma mér út í?“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Skíðasvæðið í Madonna á Ítalíu er vinsæll ferðamannastaður

 

Maður eða mús

Um kvöldið fóru vinirnir út að borða og á þriðja degi vaknaði Jörundur og fann að hann var orðinn slappur. Faðir Jörundar lést ungur úr hjartastoppi og yngri bróðir hans var búinn að fara í hjartaþræðingu svo hann fór að óttast að hjartað væri að segja til sín. „Ég horfi í spegilinn á meðan ég er að bursta tennurnar og hugsa: Ertu maður eða mús?“ rifjar hann upp. Jörundur sagði því við vin sinn að hann kæmi ekki strax í brekkuna og spurði félaga sinn á barnum hvort það væri heilsugæslustöð í grennd. Barþjónninn tekur ekki annað í mál en að skutla Jörundi og saman fara þeir upp á heilsugæslu. 

Þyrlan sækir Jörund

Jörundur lýsir einkennunum fyrir lækninum og segir honum fjölskyldusöguna. „Hann segir: Já, þetta lítur út fyrir að vera hjartaáfall, ég sendi þig með sjúkrabíl í næsta bæ.“ Jörundi leist ekki á blikuna og enn síður þegar í ljós kom að það dugði ekkert minna en sjúkraþyrla til að koma honum á næsta spítala. En örfáum mínútum síðar heyrir hann þyrluna lenda. „Mér er hent á börur og er keyrður út í þyrlu, allir horfðu á mig með vorkunnaraugum. Svo er tekist á loft og ég kem inn á spítala eftir svona korters flug og þá er tekin úr mér blóðprufa.“

Er maður með harðsperrur eða er maður með hjartakveisu?

Í kjölfarið fór Jörundur í mikla rannsókn og er skoðaður hátt og lágt. Dagur verður að kvöldi og um nóttina kemur yfirlæknirinn og er alvarleg á svip. „Hún segir við mig: „Jæja. Við erum búin að skoða þig hátt og lágt og rannsaka þig í bak og fyrir og okkar niðurstaða er að þú ert með harðsperrur,“ rifjar Jörundur upp og skellihlær. „Ég skammaðist mín svo. Spurði hvar ég ætti að gera upp, fór fram í anddyri og þau rukkuðu mig um litlar 32 þúsund krónur. Ég hugsaði: Ætli þau geti skutlað mér til baka líka fyrst þetta var svona ódýrt?“

En Jörundur tók leigubíl til baka á hótelið og naut þess sem eftir var af ferðinni. „Dagana sem við áttum eftir renndi ég mér mikið og vel. Ég gæti alveg hugsað mér að fara í svona skíðaferð aftur en ég myndi gera það á öðrum forsendum,“ segir Jörundur sem ekki hefur farið aftur á skíði eftir ferðalagið. „En er maður maður eða mús? Ég taldi þann kostinn betri að vera meyr, ekki vera jaxlinn. En svona getur þetta verið, er maður með harðsperrur eða hjartakveisu?“

Rætt var við Jörund Jökulsson í Hniti á Rás 1.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Hún kallar mig mömmu og börnin kalla mig ömmu“

Bókmenntir

„Nú verð ég drepin fyrir að tala illa um fólk“