Hélt að eiginkonan væri að bylta sér í rúminu

20.07.2020 - 10:58
Mynd: Sólveig Klara Ragnarsdóttir / RÚV
Eyjólfur Ólafsson, íbúi í Grindavík og fastagestur í sundlauginni þar í bæ, hélt að konan hans væri að bylta sér í rúminu þegar jarðskjálfti stærri en fjórir reið yfir í Grindavík í morgun.

„Ég fann þennan í morgun. Ég hélt að konan væri að bylta sér eitthvað í rúminu, það titraði svo mikið. Svo uppgötvaði ég að þetta væri jarðskjálfti.“

Stórir jarðskjálftar hafa orðið í nágrenni Grindavíkur síðastliðinn sólarhring. Frá miðnætti í nótt hafa tveir skjálftar mælst stærri en fjórir og 17 stærri en þrír við Fagradalsfjall. Seint í gærkvöld mældist skjálfti, fimm að stærð. Skjálftarnir finnast vel í Grindavík, næsta þéttbýli við upptök skjálftanna, og víðar.

„Maður kannaðist svolítið við hvernig þetta virkar. Það koma svo margir jarðskjálftar hérna,“ segir Eyjólfur sem hefur búið í Grindavík síðustu sex ár og bjó þar líka á yngri árum. Hann segist ekki kippa sér upp við jarðhræringarnar.

„Þetta er svo algengt hérna. Þetta er ekkert á við það sem var hér í gamla daga. 1974 þá lék allt hérna á reiðiskjálfi og fólk fór út í bíla og flúði og keyrði til Reykjavíkur. Allir voru komnir út á götu. Það var almennilegur skjálfti. Ég var þarna að spila félagsvist upp í Festi, sem var samkomuhús þá, og þá lék allt á reiðiskjálfi. Það var eins og maður væri kominn út á sjó. Þetta var eins og öldugangur inni í húsinu.“

Aðspurður segist Eyjólfur ekki hafa gert neinar ráðstafanir vegna skjálftahrinunnar nú. „Maður er vanur þessu. Þetta kemur af og til hérna. Jú, einhverjir eru ragir við þetta.“

Eyjólfur er fastagestur í sundlauginni í Grindavík og hefur aldrei fundið skjálfta í heita pottinum. „Ég var hérna í sundlauginni áðan og þá gekk eitthvað yfir. Ég varð ekkert var við þetta.“

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi