Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Grindvíkingar vanir hristingi en hafa nú varann á sér

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Frá því að jörð tók að skjálfa við Grindavík fyrr á árinu hafa íbúar varann á sér. Það segir Kristín María Birgisdóttir, kynningar og markaðsfulltrúi, sem búsett er í bænum í samtali við fréttastofu.

Kristín María kveðst hafa makindalega í heitum potti við heimili sitt þegar stóri skjálftinn reið yfir í gærkvöldi. Hún segir að það hafi verið glæný upplifun. Hún fann vel fyrir skjálftanum og smærri eftirskjálftum hans.

Hún kveðst hafa upplifað jarðskjálfta alla sína ævi eða svo lengi sem hún muni eftir sér. Hún og aðrir íbúar Grindavíkur séu vanir því að búa á flekaskilum við sífellda hreyfingu lands. Kristín María segir þó ákveðnar vendingar hafa orðið í janúar þegar land tók að rísa við Þorbjörn.

Þá bárust fréttir af því kvikuinnskotum neðanjarðar sem olli því að fólk tók að óttast eldgos. Það finnist íbúum Grindavíkur óþægileg tilhugsun enda ljóst að til rýmingar bæjarins komi, fari að gjósa. Því valdi stórir jarðskjálftar líkt og sá sem reið yfir í gærkvöldi ugg og óþægindum hjá fólki og jafnvel dýrum.

Kristín María segir hina fjölmörgu eftirskjálfta sem fundust vera helsta muninn á hrinunni í gærkvöldi og fyrr á árinu. Þá hefði liðið lengra á milli skjálfta.

Hún segir íbúa í Grindavík fylgjast vel með vef Veðurstofunnar þar sem hræringar á svæðinu sjáist vel og þegar stórir skjálftar finnist fyllist Facebook af athugasemdum. Þó virðist fólk finna misvel fyrir skjálftunum eftir því hvar í bænum það býr.