„Glamraði í sömu hlutunum og venjulega“

20.07.2020 - 07:14
Mynd með færslu
Otti Rafn Sigmarsson, björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík. Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Öflug jarðskjálftahrina hefur verið á Reykjanesi frá því á miðnætti þegar skjálfti upp á 5 varð við Fagradalsfjall. Í morgun hafa tveir snarpir skjálftar orðið; annar upp á 4,6 en hinn uppá 4,3. Skjálftarnir hafa fundist víða, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu, Vík og í Borgarnesi. „Maður er eiginlega orðinn vanur,“ segir íbúi í Grindavík.

Skjálftavirkni hefur verið viðvarandi á svæðinu í kringum Grindavík undanfarna mánuði í tengslum við landris en þó með hléum. „Þetta er eiginlega alveg magnað. Maður var rétt kominn upp í rúm í gærkvöld þegar allt hristist og nötraði,“ segir Otti Rafn Sigmarsson.

Hann segist vera orðinn vanur þessum skjálftum þótt þetta sé alltaf óþægilegt. „Maður frýs, það eru svona fyrstu viðbrögðin en þeir eru sem betur fer ekki langir.“ Ekkert hafi dottið úr hillum en það sé þó mjög stutt í það. „Það glamraði í sömu hlutunum og venjulega.“  Skjálftarnir séu mjög nærri og það heyrist drunur þegar skjálftarnir eru litlir „en maður vaknar við það að maður vaggar í rúminu.“

Otti segir að auðvitað sé fólk orðið þreytt á þessu og eðlilega séu einhverjir hræddir. Færri séu aftur á móti að spá í einhverjum eldsumbrotum eins og var í upphafi, núna séu þetta bara jarðskjálftar.  „Það bjargar einhverju að það er langt á milli hrinanna en þetta er búið að vera býsna mikið núna.“

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi