Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fjölga föngum hægt eftir faraldurinn

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Fangelsin fara hægt í sakirnar við það að fjölga föngum aftur eftir COVID-19 faraldurinn, ekki síst vegna fjármagnsskorts. Þetta segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við fréttastofu.

Fréttablaðið greindi frá því á föstudag að fangelsin nýttu nú aðeins helming fangaplássa. Páll segir að 630 manns bíði þess að afplána. Um það bil helmingur þeirra þurfi að sitja inni, en hinn helmingurinn komi til með að sinna samfélagsþjónustu.  

Hann segir takmarkaða nýtingu plássa innan fangelsanna meðal annars skýrast af því að farið hafi verið hægt í að boða fanga aftur til afplánunar eftir COVID-19 faraldurinn, enda vanti fjármagn.  

Fækkuðu föngum þegar neyðarstigi var lýst yfir 

Fangelsisstofnun þurfti að fækka föngum í fangelsum landsins til að tryggja öryggi og smitvarnir þegar neyðarstigi var lýst yfir vegna COVID-19 faraldursins. Aðspurður segir Páll að það hafi verið gert með þrennum hætti. Sumum var veitt reynslulausn fyrr en til stóð, aðrir voru færðir úr fangelsum yfir í áfangaheimili og gert var hlé á afplánun enn annarra, sérstaklega þeirra sem höfðu undirliggjandi sjúkdóma eða voru í áhættuhópi af öðrum ástæðum. Páll segir að aðgerðirnar hafi verið í samræmi við ráðleggingar frá pyndinganefnd Evrópuráðsins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. 

Lokun fangelsisins á Akureyri liður í hagræðingu 

Páll segir Fangelsismálastofnun nú „vinna niður halla“ í rekstri og það sé hluti af ástæðu þess að plássin séu illa nýtt. Í hagræðingarskyni hafi stofnunin meðal annars lagt til að fangelsinu á Akureyri yrði lokað, eins og fjallað hefur verið um síðustu daga.  

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, kynnti aðgerðir til að stytta boðunarlista og biðtíma til afplánunar í samræmi við tillögur starfshóps í lok júní síðastliðins. Í viðtali á RÚV sagði hún boðunarlistann óviðunandi og að ráðast þyrfti í „mjög róttækar aðgerðir til að ná honum niður“. Hún hefur nú óskað eftir því við fangelsismálastjóra að lokuninni verði frestað til 15. september, en hún átti að koma til framkvæmda í lok mánaðarins. Hún bíði nú úttektar frá ríkislögreglustjóra um hugsanlegan viðbótarkostnað lögreglunnar á Akureyri vegna lokunarinnar, og ljóst sé að skýrslan liggi ekki fyrir í lok júlí.