„Ekki boðlegt að spila fótbolta við þessar aðstæður“ 

20.07.2020 - 13:14
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin kolbeinsson - RÚV
Forsvarsmenn Knattspyrnufélags Fjallabyggðar eru ósáttir við aðstöðu í bænum og vilja að lagður verði nýr gervigrasvöllur á Ólafsfirði. Vallarstjóri segir aðstæður ekki boðlegar en liðið þurfti að færa leik inn á Dalvík fyrir helgi vegna mikilli rigninga.

Framkvæmdum frestað vegna COVID-19

Til stóð að hefja framkvæmdir við nýjan gervigrasvöll á Ólafsfirði í haust. Því hefur nú verið slegið á frest vegna óvissu í efnahagsmálum vegna COVID-19. Í yfirlýsingu knattspyrnudeildar félagsins segist stjórnin geta skilið þá stöðu sem sveitarfélagið standi frammi fyrir. Mikilvægt sé að bæjarstjórn taki þá afstöðu að hefja framkvæmdir á vellinum strax á næsta ári.

Ekki búið að slá verkefnið út af borðinu

Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð segir í samtali við fréttastofu að það sé skynsamlegt að fresta framkvæmdinni um óákveðinn tíma. Með því sé ekki verið að slá framkvæmdina út af borðinu. 

Völlurinn óleikfær um leið og það rignir

Völlurinn hefur ítrekað verið til vandræða og síðast á föstudag þurfti að færa leik liðsins á nýjan gervigrasvöll á Dalvík vegna rigninga. Halldór Ingvar Guðmundsson, vallarstjóri og leikmaður KF, er ekki ánægður með þessa stöðu.

„Þetta er bara ekki boðlegt að spila fótbolta við þessar aðstæður hérna. Það hefur ekkert verið gert hérna á þessum velli í fleiri fleiri ár. Og við áttum að fá gervigrasvöll. Það átti að fara í gang núna í haust en það er búið að fresta því.“ 

Hann segir að vatn flæði ítrekað yfir völlinn. 

„Það að þurfa að spila heimaleik á Dalvík er ekki gott en miðað við hvernig völlurinn er hér þá er bara ekkert annað í stöðunni.“

Gerist þetta oft?

„Alltaf þegar það kemur rigning. Það skiptir í rauninni ekki máli hversu mikið það kemur bara pollur hérna og völlurinn er óleikfær. 

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi