Brjálað að gera í Þórsmörk og ölið selst gjarnan upp

20.07.2020 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd: Nína Hjördís Þorkelsdóttir - RÚV
Mikið hefur verið að gera á tjaldstæðunum og skálunum í Básum og Langadal í Þórsmörk í sumar. Að sögn Guðrúnar Georgsdóttur, skálavarðar í Langadal, hefur sala á áfengi verið mjög góð í sumar. Birgðirnar hafa nokkrum sinnum klárast.

Guðrún segir að bæði útlendingar og Íslendingar séu meðal viðskiptavina. „Fólki finnst mjög gott að fá sér kaldan bjór eftir að hafa gengið 55 kílómetra,“ segir hún. Laugavegurinn, vinsæl gönguleið frá Landmannalaugum til Þórsmerkur, endar í Langadal og þar kjósa margir að gista eða slappa af að göngu lokinni. 

Guðrún segir að fyrir hafi komið að áfengisbirgðirnar klárist og þá hafi þurft að grípa til þess ráðs að hringja í neyðarsíma Ölgerðarinnar. „Það varð smá uppnám þegar allt seldist upp um daginn,“ segir hún. Guðrún segir að þótt áfengi seljist vel sé lítið um ólæti og flestir fari snemma í háttinn. 

Frá Laugaveginum, einni vinsælustu gönguleið landsins.

Þórsmörk hefur verið vinsæll áfangastaður, bæði hjá Íslendingum og útlendingum, í sumar. Rúnar Hjartar, staðarhaldari í Básum, segir að hátt í fimm hundruð manns hafi gist á tjaldstæðinu síðastliðna helgi. Rúnar fullyrðir að lítill hópur gesta skilji tillitssemina því miður eftir heima.

„Sumir gleyma því að þetta er tjaldstæði en ekki útihátíð. Íslendingar gleyma stundum að vera tillitssamir og almennt megum við sýna meiri tillitssemi en við gerum,“ segir hann. Hins vegar er mikill meirihluti gesta til fyrirmyndar. „En það eru alltaf einhverjir sem þurfa tiltal og finnst ekki ástæða til að skrúfa niður í hljómflutningsgræjunum,“ segir hann. 

Mikið hefur verið að gera hjá mörgum af helstu tjaldstæðum landsins í sumar. Vegna fjöldatakmarkana mega ekki vera fleiri en fimm hundruð í hverju sóttvarnarrými og vegna þessa hefur þurft að vísa fólki frá vinsælum tjaldstæðum.

Uppfært kl. 21:20:

Ferðafélag Íslands vill koma á framfæri Langidalur sé fjölskylduvænn staður og það sé markmið felagsins að þar ríki friður og ró. Æskilegt sé að svefnfriður sé kominn á um miðnætti. Þá vill FÍ árétta að áfengisbirgðirnar í Langadal eru ekki miklar. Um 600 bjórar hafi klárast á tíu dögum þegar mest lét.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi