Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Andhormónalyf við brjóstakrabbameini komin til landsins

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - Rúv
Andhormónalyfin Aromasin og Exemestan eru komin til landsins, að sögn framkvæmdastjóra dreifingarfyrirtækisins Distica. Frumlyfið Aromasin er komið í apótek en samheitalyfinu Exemestan hefur ekki enn verið dreift í verslanir.

Fréttastofa RÚV greindi frá því á fimmtudag að nauðsynleg andhormónalyf fyrir konur sem lokið hefðu meðferð við brjóstakrabbameini væru ófáanleg á landinu. Frumlyfið Aromasin hafði verið ófáanlegt frá 13. júlí síðastliðnum og samheitalyfið Exemestan hafði verið á biðlista frá 31. mars. Seinna sama dag bárust upplýsingar frá dreifingarfyrirtækinu um að lyfin væru á leið til landsins. 

Sömu lyf voru ófáanleg fyrir tveimur árum og konur sem þurfa á lyfinu að halda segjast hafa vanist því að skiptast á að taka frumlyfið og samheitalyfið vegna skorts á öðru hvoru. Það komi sér illa vegna ólíkra aukaverkana. Þá sé hræðslan við krítískan lyfjaskort kvíðavaldandi og óviðunandi. Þær hafi brugðist við skortinum með því að hjálpast að og skiptast á skömmtum.