
Almannavarnanefnd Grindavíkur heldur fund í dag
Skjálftar fundust víða
Öflug jarðskjálftahrina hefur staðið yfir á Reykjanesskaga frá því laust fyrir miðnætti þegar skjálfti að stærð 5 varð við Fagradalsfjall norðan Grindavíkur. Tveir eftirskjálftar stærri en 4 urðu snemma í morgun og um tuttugu skjálftar hafa mælst stærri en 3 í nótt og í morgun. Engin merki eru um gosóróa. Skjálftarnir hafa fundist víða, austur á Hvolsvöll, til Vestmannaeyja og í Borgarfirði.
Erfitt að venjast skjálftum
Almannavarnanefnd Grindavíkur hittist á fundi seinna í dag og þangað verður fenginn sérfræðingur í náttúruvá frá Veðurstofu Íslands. Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir bæjarbúa taka jarðhræringunum misvel og að erfitt sé að venjast skjálftunum jafnvel þótt hrinan hafi staðið yfir með hléum í hálft ár.
Upptök skjálftanna raðast á brotalínu
Sérfræðingar á Veðurstofu Íslands segja að skjálftarnir séu hluti af hrinu sem hófst í febrúar. Hún teygi sig núna lengra til austurs og það skýri hvers vegna íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafi fundið vel fyrir skjálftunum í morgun.
„Það má ætla að þetta séu flekahreyfingar, tektónískir atburðir,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hún segir upptök allra sterkustu skjálftanna raðast á brotalínu og þannig séu skjálftarnir í samræmi við „tektónískar“ brotalínur á Reykjanesi. Skjálftarnir skýrist sennilega af auknu álagi á skorpuna af völdum kvikuinnskota sem komið hafa undir Reykjaneshrygginn. Hún býst við því að hræringarnar haldi áfram og segir ekki liggja fyrir hvort landið hafi risið.