„Alltaf miklar vonir bundnar við Oxford-rannsóknina“

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum, segir að niðurstöður prófana vísindamanna við Oxford-háskóla á nýju bóluefni við kórónuveirunni lofi mjög góðu.

Í síðustu viku birti bandaríski lyfjaframleiðandinn Moderna niðurstöður sem einnig vekja vonir um árangur. Bryndís segir að einn helsti munurinn á rannsóknunum tveimur liggi í stærð úrtaksins. Í rannsókn lyfjafyrirtækisins Moderna tóku 45 hraustir einstaklingar þátt í prófununum. Í rannsókn Oxford-háskóla voru þátttakendur hins vegar yfir þúsund. „Án þess að vera með nákvæmar upplýsingar, þá heyrist mér eins og það séu meiri vonir bundnar við þetta bóluefni og manni heyrist þetta vera komið kannski aðeins lengra,“ segir hún. 

Bryndís segir jafnframt góðs viti að þátttakendur rannsóknarinnar hafi ekki aðeins sýnt mótefnasvar gegn veirunni, heldur líka T-frumusvar. „Við viljum helst fá meira en eina leið ónæmiskerfisins til þess að verjast sýkingum,“ segir hún.

Bryndís segir að alltaf hafi verið miklar vonir bundnar við rannsókn hóps vísindamanna við Oxford-háskóla. Prófununum stýrir dr. Sarah Gilbert, sem er afar virtur vísindamaður á sviði bólusetninga. Niðurstöðurnar sem birtust í grein í fræðitímaritinu Lancet í dag eru úr fyrsta og öðru stigi prófananna. Þær sýna fram á kröftugt mótefnasvar og óverulegar aukaverkanir. Gilbert sagði í samtali við BBC í dag að þótt niðurstöðurnar lofi góðu sé of snemmt að fullyrða hvort bóluefnið geti spornað gegn útbreiðslu kórónuveirunnar með árangursríkum hætti.

Vísindamenn vinna hörðum höndum að því að finna bóluefni gegn kórónuveirunni.

Bryndís segir jafnframt að ýmsum spurningum varðandi árangur rannsóknarinnar sé enn ósvarað. Til dæmis liggur enn ekki fyrir hversu lengi mótefni bólusettra endist. 

Telur að bólusetningar gætu hafist eftir ár

BBC greindi frá því í dag að bresk yfirvöld hafi þegar pantað 190 milljón skammta af mismunandi bóluefnum sem nú eru í prófunum. Aðspurð hvort tímabært sé fyrir íslensk stjórnvöld að huga að slíkum pöntunum svarar Bryndís að henni þyki sennilegt að íslensk stjórnvöld fylgist vel með fregnum um árangursríkar prófanir bóluefnis. 

Prófanir á bóluefni taka gjarnan talsvert langan tíma, jafnvel nokkur ár. Bryndís segir þó hugsanlegt að bólusetningar við kórónuveirunni geti hafist eftir ár. Hún segir að í vetur hafi litið út fyrir að bóluefni yrði í fyrsta lagi aðgengilegt eftir áramót 2021 og líklegast nær sumri. „En miðað við þessar rannsóknir þá finnst manni það vera að koma nær og nær. Að eftir ár verði hugsanlega komið bóluefni.“ Bryndís bætir við að ekki sé um ævilanga vörn að ræða. „Það er enginn að tala um ævilanga vörn, en ef þetta eru tvö ár eða þrjú ár þá erum við samt komin lengra en við vorum fyrir hálfu ári síðan,“ segir hún.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi