Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Á topp heimslistans eftir sigur í Ohio

epa08242427 Spanish Jon Rahm competes during the last round of the WGC Mexico Championship, held at the Chapultepec Golf Club in Mexico City, Mexico, 23 February 2020.  EPA-EFE/Jose Mendez
 Mynd: EPA

Á topp heimslistans eftir sigur í Ohio

20.07.2020 - 12:20
Spænski kylfingurinn Jon Rahm fór á topp heimslistans í golfi með sigri sínum á Memorial-mótinu sem fram fór í Ohio um helgina. Mótið er hluti af PGA-mótaröðinni.

Rahm var með góða forystu fyrir lokadaginn í gær en hann var á tólf höggum undir pari fyrir síðasta hringinn, fjórum höggum á undan Bandaríkjamönnunum Tony Finau og Ryan Palmer sem voru báðir á átta höggum undir.

Enginn þeirra lék sinn besta hring í gær en forysta Rahm var slík fyrir lokahringinn að sigur hans var aldrei í mikilli hættu. Hann lék lokahringinn á 75 höggum, þremur yfir pari vallar, og lauk keppni efstur á níu höggum undir pari í heild.

Palmer varð annar á sex undir pari en Matthew Fitzpatrick frá Englandi varð þriðju á fimm undir. Finau lék lokahringinn á sex yfir parinu og fór við það niður í áttunda sæti.

Sigur Rahm skýtur honum á efsta sæti heimslistans, uppfyrir Norður-Írann Rory McIlroy.